Lítil þyrla náði flugi á Mars

19.04.2021 - 15:43
Mynd: EPA-EFE / NASA/JPL-Caltech
Í fyrsta sinn hefur vísindafólki tekist að koma tæki á flug á annarri plánetu. Þyrlan Ingenuity náði að taka á loft, fljúga og lenda aftur á Mars fyrr í dag.

Fagnaðaróp og lófatök glumdu á rannsóknarstofu NASA í Kaliforníu þegar verkfræðingurinn Håvard Grip tilkynnti að þyrlan Ingenuity hefði náð að framkvæma sitt fyrsta flug á plánetunni Mars. Þótt Ingenutiy, sem mætti þýða sem hugvitsemi, hafi aðeins verið á flugi í innan við mínútu þá er þessum áfanga fagnað ákaft hjá NASA og öðru geimáhugafólki því það er fyrsta flugtækið sem nær flugi á annarri plánetu.  

Kanna aðstæður til flugs

Ingenutiy er ekki á stærð við venjulega þyrlu heldur er hún lítill þyrludróni sem var fluttur til Mars með geimjeppanum Þrautsegju sem lenti þar í febrúar. Þessi litli dróni hefur það merkilega hlutverk að kanna aðstæður til flugs á Mars. Næstu daga ætlar NASA að láta á það reyna hversu hátt, langt og lengi hann getur flogið. Vonast er til að hægt verði að senda fleiri flugtæki þangað í framtíðinni sem geti flogið yfir og fundið hentugar akstursleiðir fyrir geimjeppa og áhugaverða staði fyrir vísindafólk að kanna.