Leggur mögulega fram frumvarp um sóttkvíarhótel

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Ríkisstjórnin ræðir á fundi sínum í fyrramálið mögulegar útfærslur á lagafrumvarpi um hvernig tryggja megi lagastoð fyrir þeirri aðgerð að skikka fólk í sóttkví í sóttkvíarhúsi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er mögulegt að heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp þess efnis.

Héraðsdómur úrskurðaði í upphafi mánaðarins að ekki mætti skikka þá í dvöl í sóttkvíarhús sem gátu verið í sóttkví heima hjá sér. Forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að alveg frá því úrskurðurinn féll hafi ríkisstjórnin verið að skoða hvaða leiðir sé hægt að fara í nýju lagafrumvarpi.  

Í minnisblaði yfirlögfræðings og skrifstofu heilsueflingar og vísinda til heilbrigðisráðherra þann 8. apríl var nýtt frumvarp nefnt sem ein leiðin til að bregðast við úrskurði héraðsdóms.  Með því væri hægt að skjóta viðhlítandi lagastoð undir sóttvarnahús. Í minnisblaðinu var vísað til minnisblaðs Eddu Andradóttur sem rak málið fyrir sóttvarnalækni þegar það kom til kasta héraðsdóms.

Í því minnisblaði var bent á að skilgreina þyrfti sóttvarnarhús með skýrari hætti. Ekki mætti fara á milli mála að ákvæðið þrengdi ekki þá meginreglu í sóttvarnalögum að sóttkví væri ekki bundin við tiltekin stað og að yfirvöld hefðu svigrúm til að ákveða tilhögun sóttkvíar.

27 greindust með kórónuveiruna í gær, þar af 25 í sóttkví. Yfirvöld telja að hröð útbreiðsla smita á síðustu dögum megi rekja til tveggja sóttkvíarbrota þar sem farþegar virtu ekki fimm daga sóttkví eftir komuna til landsins. 

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við fréttastofu að annað málið væri þegar til rannsóknar en beðið væri eftir upplýsingum um hitt. Miðað við upplýsingar um málið úr fjölmiðlum yrði þó að teljast líklegt að það yrði einnig að lögreglumáli.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort aðgerðir verði hertar en næstu dagar skera úr um hvort smitin verði stór hópsýking eða upphafið að nýrri bylgju. Almannavarnir hvöttu landsmenn í dag til þess að forðast mannmarga staði og halda mannamótum í lágmarki.
 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir