Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ísland of háð ferðaþjónustu þegar faraldurinn skall á

Mynd: rstefano12 / Pixbay
Of mikil áhersla á ferðaþjónustu var einn helsti veikleiki Íslands þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn varar jafnframt við bólumyndun á fasteignamarkaði.

Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var Ísland í sterkri stöðu áður en faraldurinn reið yfir og það, ásamt aðgerðum stjórnvalda, leiddi til þess að Covid-kreppan varð ekki jafn djúp og óttast var. Það var þó einn stór veikleiki í íslenska hagkerfinu, það er hversu mikið það reiddi sig á ferðaþjónustu. Því þarf að breyta að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Íslenskt vinnuafl er vannýtt

Fjölga þarf eggjum í körfunni og fullnýta þekkingu íslensks vinnuafls, sem nú er vannýtt. „Þekking og færni vinnuaflsins er þegar mjög mikil en samt er það svo að nýtingin og verðmætaaukningin í upplýsingatækni og hátækni er ekki í réttu hlutfalli við getu og færni þjóðarinnar og vinnuaflsins. Þýðir það endalok þjónustunnar? Alls ekki,“ segir Iva Petrova, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Ferðaþjónustan verði enn mikilvæg en hana þurfi að byggja upp samhliða öðrum atvinnugreinum. Nú sé tækifæri því sjóðurinn spáir hægum bata á ferðaþjónustu, rétt eins og hægum bata hagkerfisins. Er því spáð að á næsta ári verði hagkerfið komið á sama stað og það var fyrir faraldurinn - að því gefnu að bólusetningaáætlanir gangi upp og ný afbrigði kórónuveirunnar setji ekki allt á hliðina.

Áhyggjur af mögulegri bólumyndun á fasteignamarkaði

Sjóðurinn hefur einnig áhyggjur af mögulegri bólumyndun á fasteignamarkaði en fasteignaverð hefur haldið áfram að hækka þrátt fyrir faraldurinn, fyrst og fremst vegna lágra vaxta. Það hefur kynt undir verðbólgu. „Svo það er ljóst að þrýstingur er til staðar, sem þarf að mæta. Mögulega gæti verið um bólu að ræða. Eins og er höfum við ekki miklar áhyggjur af því. Samt teljum við að það þurfi að fylgjast með og taka á því,“ segir Petrova.

Bendir sjóðurinn á að megnið af útlánum bankanna í faraldrinum hafi farið til heimila en nú sé kominn tími til að bankarnir láni í auknum mæli til fyrirtækja og verðmætaskapandi verkefna.

Magnús Geir Eyjólfsson