Er nektarsjálfan list?

Mynd: Sarah Goodridge / wikipedia

Er nektarsjálfan list?

19.04.2021 - 15:20

Höfundar

Í daglegu tali er rætt um nektarsjálfsmyndir, sendar elskenda á milli, sem nútímalegt og jafnvel skammarlegt fyrirbæri. Þó er sú elsta sem vitað er um tæplega 200 ára gömul og hangir á einu virtasta listasafni heims.

Myndin sýnir bara brjóstin á henni, snjóhvít, fyrir utan fæðingarblett ofarlega á hægra brjóstinu og stinnar, bleikar, fíngerðar geirvörturnar. Allir aðrir líkamspartar; höfuð, herðar, hné og tær, háls handleggir og magi, eru úr mynd. Kannski svo hún þekkist ekki. Það er, eftir allt saman, ein helsta varúðarráðstöfunin þegar sendar eru nektarmyndir. Ef þær skyldu leka er andlitið þó ekki með.

Lýsingin á myndinni, skuggarnir sem falla á brjóstin og skíman sem endurvarpast af hvíta klútnum sem er vafinn í kringum þau eins og til að ramma þau inn, er einhvern veginn rómantísk. Það þarf ekki að koma á óvart, myndin var eftir allt saman máluð á hátindi rómantíkurinnar árið 1828, af bandarísku listakonunni Söruh Goodridge.

Myndin er sjálfsmynd, sýnir brjóst Goodridge. Hún málaði hana með vatnslitum, á smáan flöt úr fílabeini, sem er það þunnt að ef verkinu er haldið upp að ljósgjafa er eins og hvítt holdið glói. 

Goodridge sendi hana til öldungadeildarþingmannsins Daniel Webster, stuttu eftir að hann varð ekkill. Stærð myndarinnar þykir gefa til kynna að hún hafi aðeins verið ætluð Webster sjálfum en nú tæpum 200 árum síðar er hún í eigu Metropolitan-safnsins í New York.

Kannski er sú staðreynd ágætisáminning um gamalkunnan sannleik: eina leiðin til að koma í veg fyrir að nektarmyndir endi í röngum höndum er að taka ekki nektarmyndir. En þessi sannleikur er leiðinlegur, óspennandi, síst valdeflandi. Og þó hann sé sannur, felur hann líka í sér ákveðna þolendaskömmun. Svo við skulum gleyma honum, eitt andartak og þess í stað spyrja okkur:

Ef nektarsjálfa Goodridge er list, hví skyldu nektarsjálfur samtímans ekki vera það líka?

Karlmenn horfa á konur, konur horfa á aðra horfa á sig

Mynd með færslu
Nu descendant un escalier – „Nakinn gengur niður stiga” eftir dadaíska kúbistann, Marcel Duchamp.

Löng hefð er fyrir nektarmyndum í listasögunni. Við getum stiklað frá frjósemistáknum Mesópótamíu yfir á forngrískar styttur, þaðan að Davíðs  Michelanglos og yfir til Venusar Botticelli’s. Francisco Goya lenti í vandræðum gagnvart spænska rannsóknarréttinum vegna La Maja Desnuda, þar sem nakin, afslöppuð, fyrirsætan horfir blygðunarlaust framan í áhorfandann og rúmum hundrað árum síðar hafnaði Le Salon verkinu Nu descendant un escalier – „Nakinn gengur niður stiga“ eftir dadaíska kúbistann, Marcel Duchamp.

Myndin er abstrakt, það er varla hægt að greina á henni nokkra líkamshluta eða nekt, en hugmyndin þótti óvirðuleg. „Nekt” mátti ekki sýna á hreyfingu, hún átti að liggja, halla sér, vera hlutlaus fremur en virkur gerandi. Auðvitað átti þetta einna helst við um myndir af nöktum konum.

Í grein sinni fyrir BBC bendir Holly Williams á að sjónarhorn karlmanna hafi ráðið ríkjum þegar kom að nektarmyndum af konum fyrir 20. öldina. Slíkar myndir voru yfirleitt málaðar af karlkyns listamönnum, fyrir karlkyns kaupendur. Hún vísar í skrif listrýnisins John Berger frá 1972 þar sem segir að „karlmenn horfi á konur, konur horfi á aðra horfa á sig. Þetta ákvarðar ekki aðeins samband milli karla og kvenna heldur einnig samband konunnar við sjálfa sig. Áhorfandinn að konunni, innan hennar sjálfrar, konunnar sem horft er á, er karl.“

Þannig, skrifar Holly, sáu konur í hundruð ára aðeins ytri túlkanir á kyni sínu, sýjaðar í gegnum augu karlmanna og tileinkuðu sér því einnig þá túlkun hið innra. 

Mynd með færslu
Sjálfsmynd Paulu Modersohn-Becker.

Nú hafa konur teiknað, málað og sýnt sjálfsnektarmyndir af sér opinberlega í meira en hundrað ár. Sem dæmi má nefna Paulu Modersohn-Becker, Fridu Kahlo og Yoko Ono. Kvenlíkaminn er enn í dag, og kannski meira en nokkru sinni, pólitískur leikvöllur, tilefni til endalausra umræðna um vald, kyn, og sjálf á listasöfnum heimsins. En þarf list að vera á safni til að vera list? Þarf mynd að vera sköpuð af „listamanni“, til að teljast list. Getur nektarsjálfa, tekin á snjallsíma og deilt á takmarkaðan eða stærri hóp talist list?

Auðvitað.

Ásetningur er aukaatriði

Ef list, er eitthvað sem er skapað af manneskju í fagurfræðilegum tilgangi eða til þess að eiga samskipti um hugmyndir, tilfinningar eða heimssýn þá falla sjálfsmyndir svo sannarlega í þann hóp. Mörg þeirra sem taka af sér nektarmyndir eyða í það miklum tíma – farða sig, finna réttu stellingarnar, rétta ljósið, réttu aðstæðurnar, til þess að senda réttu skilaboðin – hvort sem þau eru ætluð til einkanota eða fyrir augu allra sem horfa vilja.

Persónulegar sjálfsmyndir, teknar á handhæga snjallsíma geta tjáð áður óþekkta nánd, samband einstaklingsins við eigin ímynd - veri hún performatív eða hrá. Nektarsjálfan er ekki lengur bara aðgengileg hefðbundnum listamönnum, heldur okkur öllum. Sjónarhornið er ekki lengur einhliða, heldur margrætt og lýsandi fyrir ólíka einstaklinga, ólíka reynslu af ytri og innri heimi. List þarf ekki að ætla að vera list til að vera list. List þarf bara að segja eitthvað. Nálægð sjálfsnektarmynda við hið forboðna sjálf hlýtur að segja okkur eitthvað, um listamanninn og heiminn, í hvert einasta skipti sem hún birtist okkur.

Ef málverk Gustave Courbet, nærmynd af píku með náttúrulegum hárvexti, undir titlinum L’Origine du Monde – „Uppruni heimsins“ getur hangið á safni, er þá hægt að afneita fagurfræði og merkingarþrunga sambærilegra mynda, sem teknar eru af fyrirsætunum sjálfum?

Mynd með færslu
 Mynd: Gustave Gourbet - Wikipedia
L’Origine du Monde – „Uppruni heimsins”.

Spegill á samfélagið

„Hvert og eitt okkar hefur líkama, og hvert og eitt okkar fæddist nakið,“ skrifar Nick Hilden fyrir Artzine.com. „En fjöldi flókinna félagslegra aðstæðna hefur brenglað samband okkar við líkama okkar og annarra öldum saman. Nekt í listum er eins konar spegill sem neyðir okkur til að horfast í augu við hvernig samfélagið hefur ruglað líkamleg sambönd okkar. Hún minnir okkur á að mannslíkaminn getur verið fallegur, ógeðfelldur, saklaus og kynferðislegur, frjáls og stýrður, og hún neyðir okkur til að íhuga hvar við sjálf stöndum á því rófi.“

Nekt er ekki hættuleg. Skömm er hættuleg. Með því að taka nektarmyndir, senda nektarmyndir og njóta nektarmynda leikum við okkur á gatnamótum mannlegrar fegurðar og mannlegrar skammar. Það er list. 

Lesendur athugi: Umfjöllunarefni greinarinnar snýr aðeins að nektarmyndum sem teknar eru og sendar með fullu samþykki þar til bærra einstaklinga.

Pistill var upprunalega fluttur í Lestinni á Rás 1. 

Tengdar fréttir

Innlent

„Það eru völd sem ég ætla ekki að gefa þessum geranda“