Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Borginni ókunnugt um asbest í Gufunesi

Mynd með færslu
Staðsetning Íslenska gámafélagsins í Gufunesi hefur lengi verið umdeild og íbúar orðnir þreyttir á lykt sem þaðan berst. Mynd: Menningin - RÚV
Borgaryfirvöldum var ekki kunnugt um að asbest væri í byggingu á svæði Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sem Vinnueftirlitið stöðvaði framkvæmdir við í nóvember síðastliðnum. Þetta kemur í svari frá Reykjavíkurborg við fyrirspurn fréttastofu og að brugðist hafi verið við reglum samkvæmt.

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins var harðorð í garð borgaryfirvalda í aðsendri grein í Morgunblaðinu 15. apríl síðastliðinn. Þar segir hún dapurt að Reykjavíkurborg virðist ekki hafa vitað af asbestinu í byggingunni. 

Í grein Valgerðar var fullyrt að fólk hefði unnið óvarið í húsinu. Í lok maí á síðasta ári voru auglýstir yfir þúsund fermetrar húsnæðis í Gufunesi til umsóknar fyrir listamenn, skapandi fyrirtæki og frumkvöðla. 

Í svari borgarinnar kemur fram að alltaf sé sá möguleiki að asbest finnist í eldri byggingum þegar farið sé í breytingar eða lagfæringar. Húsinu í Gufunesi hafi þegar verið lokað eftir að iðnaðarmaður á vegum leigutaka rakst á asbest.

Asbest var fjarlægt og húsið þrifið. „Reykjavíkurborg vinnur eftir reglum vinnueftirlits og heilbrigðiseftirlits þegar hrófla þarf við asbesti.“ Ekki má farga asbesti nema að fengnu leyfi heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags.

Valgerður segir í grein sinni að meirihlutinn í Reykjavík hafi hafnað tilllögu hennar að sérstakri úttekt á stöðu asbests í stofnunum borgarinnar. Slíkt þætti of kostnaðarsamt ásamt því sem því fylgdi mikið rask.

Hún segir að setja þurfi strangar vinnureglur og safna upplýsingum umfang asbests í húsnæði borgarinnar til komast hjá því að fólk verði fyrir mengun. 

Til að mega vinna við niðurrif eða viðhald á asbesti ber að hafa lokið sérstökum námskeiðum hjá Vinnueftirlitinu. Tryggja beri að rykmengun verði eins lítil og mögulegt og starfsmenn skulu nota persónuhlífar og huga að áhættumati. 

Asbest er steinefni sem var lengi notað sem eldvarnarefni, hljóð- eða hitaeinangrun í húsum. Í skrifum Sigurðar V. Smárasonar doktors í efnafræði á Vísindavefnum segir að asbest brotni mjög auðveldlega niður og myndi fínsallað asbestryk.

Efnið festist í lungum við innöndun enda líkist það mest litlum nálum. Andi fólk miklu magni asbestryks að sér geta þræðirnir orðið svo margir að þeir valdi tjóni.

Sá skaði komi jafnvel ekki fram fyrr en áratugum síðar og þá sem hættulegir sjúkdómar á borð við steinlunga, lungnakrabbamein eða fleiðrukrabbamein. Innflutningur og notkun asbests var bönnuð með reglugerð árið 1983. 

Þann 1. janúar 2005 gekk í gildi allsherjarbann við notkun asbests á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er þó í notkun víða um heim. 

Reglugerðir eru í gildi um förgun og innflutning asbests sem heilbrigðiseftirlit og umhverfisstofnun hefur umsjón með. Allt asbestniðurrif er leyfisskylt frá bæði Vinnueftirliti og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.