Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Alþjóðleg knattspyrnuyfirvöld andvíg ofurdeild

Mynd með færslu
 Mynd: Arnaldur Halldórsson - ÍSÍ

Alþjóðleg knattspyrnuyfirvöld andvíg ofurdeild

19.04.2021 - 09:53
Allt verður reynt til að koma í veg fyrir stofnun nýrrar ofurdeildar tólf evrópskra knattspyrnufélaga að sögn Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ. Hún segir tímasetningu tilkynningar félaganna ekki tilviljun enda hefist þing Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA) á morgun.

Klara segir knattspyrnuyfirvöld um allan heim algerlega á móti fyrirætlunum félaganna og að gríðarmiklir fjármunir séu í húfi.  

„Sem hafa hingað til verið nýttir til að reka knattspyrnuhreyfingarnar 
ekki síst þá þætti sem okkur eru hvað kærastir. Það eru yngri flokkar, yngri landslið, fræðsla, menntun allt þetta er rekið að hluta til af þessum tekjum sem þarna verða og verið er að seilast í.“ 

Klara áréttar að þessi nýja deild hafi ekki enn raungerst en að stofnun hennar hafi verið í bígerð um langa hríð. Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA og UEFA muni fara í aðgerðir gegn stofnun hennar ásamt knattspyrnuyfirvöldum í viðkomandi löndum.

Ekki hafi verið höfð samvinna við samböndin og samþykki þeirra liggi ekki fyrir. Miklar væringar séu erlendis vegna þessa og allt verði gert til þess að ekki verði af stofnun þessarar ofurdeildar.

Fundur Norðurlandadeildar verði í dag og UEFA þing hefst í Sviss á morgun þar sem búast má við að  stofnun ofurdeildarinnar verði eitt af stóru málunum.  Guðni Bergsson formaður KSÍ verður fulltrúi Íslands þar.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Tólf stórlið stofna ofurdeild í skugga hótana