Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tólf stórlið stofna ofurdeild í skugga hótana

epa09135803 Liverpool's Georginio Wijnaldum (L) in action against Real Madrid's Luka Modric (R) during the UEFA Champions League quarter final, second leg soccer match between Liverpool FC and Real Madrid in Liverpool, Britain, 14 April 2021.  EPA-EFE/Peter Powell
Fari svo að hvort tveggja stórliðin tólf og knattspyrnusamböndin standi við stóru orðin verða þeir Georginio Wijnaldum og Luka Modric að velja á milli ofurdeildarinnar nýju og þess, að keppa með landsliðum sínum á alþjóðamótum.  Mynd: EPA

Tólf stórlið stofna ofurdeild í skugga hótana

18.04.2021 - 23:45
Forsvarsmenn tólf evrópskra fótboltafélaga sendu frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem þeir lýstu formlega yfir stofnun nýrrar, sjálfstæðrar ofurdeildar evrópskra knattspyrnufélaga, þrátt fyrir hótanir um útilokun félaganna og leikmanna þeirra frá deildarkeppni og alþjóðamótum.

„AC Milan, Arsenal, Atletico Madrid, Chelsea, Barcelona, Inter Milan, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham Hotspur hafa gerst stofnfélagar“ í nýju ofurdeildinni, segir í sameiginlegri yfirlýsingu félaganna.

Þar kemur líka fram að stofnfélögin muni fá „eingreiðslu sem nemur 3,5 milljörðum evra,“ og að ætlunin sé að bjóða þremur knattspyrnufélögum til viðbótar stofnaðild að deildinni „áður en fyrsta leiktímabilið hefst, sem verður svo fljótt sem auðið er.“

Græðgi þeirra sem vilja halda kökunni og eta hana líka 

Í yfirlýsingu frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, fyrr í dag, segir að félögin tólf og leikmenn þeirra geti búist við útilokun frá alþjóðakeppni á borð við EM og HM. Með stofnun deildarinnar hugsi félögin eingöngu um eigin, fjárhagslegu hagsmuni á kostnað knattspyrnunnar og aðdáenda hennar.

Ætlunin er að þessi nýja ofurdeild verði nánast lokuð, þannig að stofnfélögin 15 geti ekki fallið úr keppni.  Hins vegar geti fimm lið til viðbótar unnið sér sess í keppninni á ári hverju, en þá einungis fyrir það keppnisár. 

Og liðin sem að ofurdeildinni standa ætla hvort tveggja að halda kökunni og eta, því forsvarsmenn þeirra vilja að félögin haldi áfram að keppa í deildarkeppnum heimafyrir og í öðrum Evrópukeppnum, svo sem Meistaradeildinni og Evrópubikarnum.

Hóta útilokun liða og leikmanna

Það er þó ekki víst að þeim verði kápan úr því klæðinu. Forsvarsmenn bresku, ítölsku og spænsku knattspyrnusambandanna hafa lýst því yfir að félögin verði útilokuð frá deildarkeppninni í heimalöndum sínum, haldi þau þessum áformum sínum til streitu.

Einnig hafa hvort tveggja FIFA og UEFA hótað því að útiloka bæði félögin og alla leikmenn sem keppa fyrir þau í þessari fyrirhuguðu ofurdeild frá allri alþjóðlegri keppni á vegum sambandanna.

Eigandi Juventus einn af höfundum nýrrar útfærslu Meistaradeildarinnar

Samtök evrópskra félagsliða, ECA, fordæma líka stofnun nýju ofurdeildarinnar, sem lýst var yfir daginn áður en UEFA hyggst kynna endanlega útfærslu á nýju fyrirkomulagi á Meistaradeildinni, þar sem 36 lið eiga að keppa í framtíðinni í stað 32.

Andrea Agnelli, eigandi Juventus, sat í framkvæmdastjórn UEFA þar til i gær. Hann var einmitt lykilmaður í því að semja um þetta nýja fyrirkomulag, sem hann lýsti mikilli ánægju með og sagði stórt framfaraskref. Agnelli var líka  formaður ECA þar til í gær, að tilkynnti var um stofnun ofurdeildarinnar og aðild Juventus að henni. Þá sagði Agnelli af sér formennskunni og Juventus úr félaginu um leið.

Og það eru ekki bara þjóðleg og alþjóðleg knattspyrnusambönd sem hafa mótmælt þessari fyrirhuguðu prívat-ofurdeild stóru og ríku klúbbanna, því evrópskir stjórnmálamenn og jafnvel þjóðarleiðtogar hafa líka stigið fram, hver af öðrum, og fordæmt þetta framtak þeirra, þar á meðal þeir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, Frakklandsforseti. 

Græðgi manna sem þarf að stöðva

Bandaríski auðkýfingurinn Joel Glazer, aðaleigandi Manchester United og varaformaður hins nýja ofurklúbbs evrópsku stórliðanna, er á því að ofurdeildin komi fótboltanum til góða og muni líka skila liðum utan ofurklúbbsins meiri tekjum, þótt hann útskýri ekki hvernig það á að gerast.

Gary Neville, leikmaður og fyrirliði Manchester United til margra ára og stuðningsmaður félagsins síðustu 40 árin er á öndverðum meiði. Í samtali við Sky Sports sagði hann ráðabrugg stórliðanna tólf til háborinnar skammar. „Þetta er hrein græðgi,“ sagði Neville, sem segir eigendur ensku liðanna sex sigla undir fölsku flaggi.

„Þeir hafa engin tengsl við fótbolta í þessu landi. Landi, þar sem saga fótboltans og stuðningsmanna fótboltans teygir sig meira en 100 ár aftur í tímann.“ Á sama tíma og minni liðin í Bretlandi berjist í bökkum í heimsfaraldrinum, segir Neville, „þá er þetta lið á Zoom-fundum að plana sér-deild. Takið af þeim öll stig á morgun. Setjið þau á botn deildarinnar og takið af þeim peningana. Í alvöru. Þið verðið að stoppa þetta,“ sagði Neville.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Fótboltaheimurinn nötrar

Fótbolti

Allt í bál og brand milli UEFA og stóru liðanna