Þrettán ný smit greindust í gær - flest tengd Jörfa

18.04.2021 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fleiri COVID-19 smit greindust í gær heldur en nokkurn stakan dag síðan 23. mars. Smitin í gær voru þrettán og þótt svo fimm þeirra flokkist innan sóttkvíar var sú sóttkví búin að standa stutt yfir. Í það minnsta tíu smitanna tengjast leikskólanum Jörfa í Bústaðahverfi Reykjavík. Þar greindist fyrsta smitið á föstudag og þeim fjölgaði hratt í gær þegar farið var að taka sýni úr fleiri starfsmönnum. Íbúar í næsta nágrenni leikskólans eru hvattir til að fara í skimun.

Allir starfsmenn og nemendur leikskólans eru nú í sóttkví, um hundrað börn og 33 starfsmenn. Foreldrar og systkin á heimilum barna úr leikskólanum þurfa að fara í sóttkví með börnunum, þó er þeim möguleika haldið opnum að annað foreldri og systkin fari ekki í sóttkví en þá þurfa þau að fara af heimilinu, samkvæmt bréfi sem foreldrar fengu í gærkvöld. 

Samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum verður öllum börnum, foreldrum og starfsmönnum boðið að fara í skimun í dag. Sérstakur valhnappur verður settur á Heilsuveru í dag. 

„Sóttvarnalæknir og almannavarnir hvetja alla þá sem hafa umgengist starfsmenn eða börn á leikskólanum Jörfa síðustu viku að fara í skimun og á það við um börn jafnt sem fullorðna,“ segir í tilkynningunni. „Einnig hvetjum við íbúa sem búa í næsta nágrenni leikskólans að fara í skimum, ástæðan er mikil samskipti á milli fólks og krakkarnir eðlilega mikið að ferðinni.“

Ekki hafa fleiri smit greinst á einum degi síðan 23. mars. Þá voru smitin sextán talsins. Það þarf svo að fara allt aftur til 27. nóvember í fyrra til að finna dæmi þess að jafn mörg smit hafi greinst utan sóttkvíar, átta talsins. Þar þarf þó að hafa í huga að starfsmenn á einni deild Jörfa og stjórnendur fóru í sóttkví á föstudag, deginum áður en smitin í gær voru greind.

Fréttin var uppfærð 11:25.