Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þingmenn lúta í lægra haldi fyrir nýjum frambjóðendum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Í gær urðu ljós úrslit í prófkjöri Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi og Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Í báðum prófkjörum lutu þingmenn í lægra haldi fyrir frambjóðendum utan þings.

Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður sóttist eftir því að leiða lista Vinstri grænna en Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hafði betur. Ólafur segist hlíta niðurstöðunum, jafnvel þótt honum kunni að verða boðið þriðja sæti til þess að karlar skipi ekki tvö efstu sætin.„Ég bauð mig fram í fyrsta sæti og vonaðist eftir meiri stuðningi í það en ég fæ ágætis stuðning í annað sætið. Ég taldi mig eiga ágætis möguleika á fyrsta sætinu en það var mikið um nýskráningar og þátttakan minni en í venjulegu forvali. Og það kann að hafa haft áhrif á niðurstöðurnar og virðist aðeins breyta myndinni frá þeirri stöðu sem var áður,“ segir Ólafur.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

„Maður sér fjöldann og veltir því fyrir sér hvort nýskráningar hafi velt niðurstöðunni,“ bætir hann við. Kolbeinn Óttarsson Proppé, flokksfélagi Ólafs og þingmaður, sóttist eftir fyrsta sæti í Suðurkjördæmi en hafnaði í því fjórða og fyrir ofan hann þrír frambjóðendur utan þings. Þá lenti Bjarkey Olsen, þingmaður sama flokks, í öðru sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi, en sóttist eftir því fyrsta.

Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sóttist eftir að leiða flokkinn í Norðausturkjördæmi en hafnaði í öðru sæti. Hún heldur þannig sínu sæti og ætlar að halda sínu striki.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd

„Auðvitað eru það vonbrigði en þessi hópur sem skipar sex efstu sætin er öflugur hópur. Þannig að mér líst bara vel á starfið framundan og hlakka til að vinna með Framsóknarfólki í kjördæminu,“ segir hún.

Ingibjörg Ólöf Ísaksen, framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar, leiðir listann og líst vel á hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Framsóknarflokkurinn

„Ég vann statt og stöðugt að þessari niðurstöðu þannig að ég er gríðarlega stolt og ánægð og þakklát fyrir stuðninginn sem flokksfélagar sýna mér. Ég hef fundið fyrir miklum meðbyr og jákvæðni síðan ég kynnti framboðið mitt. þarna kemur að hópur fólks sem var tilbúinn til að aðstoða mig og ég er rosalega þakklát fyrir það,“ segir hún.