Talinn hafa smitast á Jörfa en ekki borið smit með sér

18.04.2021 - 15:47
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV - Guðmundur Bergkvist
Starfsmaðurinn á leikskólanum Jörfa í Reykjavík, sem fyrst greindist smitaður á fimmtudag, er talinn hafa smitast við störf sín innan leikskólans en ekki borið smit inn í skólann.

Fjöldi fólks sem tengist leikskólanum fer í sýnatöku í dag og Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, býst við að fleiri smit eigi eftir að koma upp.

„Við erum ennþá að bíða eftir hvað kemur úr skimunum gærdagsins og dagsins í dag. Það má alveg búast við að eitthvað bætist í hópinn. En það kom líka í ljós að þessi starfsmaður sem fyrst fann fyrir þessum einkennum og fór í sýnatöku, það eru allar líkur á að hann hafi ekki borið smit inn í leikskólann heldur hafi sjálfur smitast í starfi á leikskólanum,“ segir Helgi.

Er eitthvað ráðið með framhald skólastarfs?

„Í leikskólanum Jörfa, hann verður lokaður alla næstu viku. Þeir sem eru að fara þar í sóttkví sem eru bæði allir starfsmenn og börnin, því líkur með sýnatöku á föstudaginn næsta. Þannig að allur þessi hópur er í sóttkví fram að þeim tíma og eðlilega þarf að hafa sérstaka gát á því að allir þeir sem hafa umgengist þá sem hafa mögulega orðið útsettir fyrir smiti, að þeir gæti sín. Það er búið að opna sérstakan hnapp þannig það eru allir hvattir sem hafa tengingu þarna inn að fara í sýnatöku.“

Veistu eitthvað um líðan þeirra sem hafa smitast?

„Það er mjög ólíkt. Það eru tveir starfsmenn sem eru veikir en ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um allan þennan hóp,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.