Kipchoge vann Twente maraþonið á frábærum tíma

epa08719263 Eliud Kipchoge of Kenya (C) in action in elite men?s race during the London Marathon in London, Britain, 04 October 2020.  EPA-EFE/Adam Davy / POOL
 Mynd: EPA

Kipchoge vann Twente maraþonið á frábærum tíma

18.04.2021 - 10:23
Kenýski hlauparinn Eliud Kipchoge, heimsmethafi og Ólympíumeistari í maraþonhlaupi keppti í dag í Twente maraþoninu í Hollandi. Kipchoge sem notaði hlaupið sem undirbúning fyrir Ólympíuleikana í sumar vann öruggt í dag.

Sigurtími Kipchoge í Twente var 2:04:30 klst. sem er hraðasti tími ársins hingað til í maraþonhlaupi. Það er þó nokkuð frá heimsmeti Kipchoge sem hann setti í Berlínarmaraþoninu 2018 þegar hann hljóp á 2:01:39 klst. Reyndar hefur Kipchoge líka hlaupið maraþon einn manna í heimssögunni á undir tveimur klukkustundum. Það gerði hann 12. október 2019 á sérstökum viðburði þar sem notast var við hraðastjóra og héra allt hlaupið og viðburðurinn eingöngu settur upp í þeim tilgangi að koma Kipchoge undir tvær klukkustundirnar. Það fékkst því ekki gilt sem löglegt heimsmet.

Tími Kipchoge í Hollandi í dag gefur honum góð fyrirheit fyrir sumarið. Hann ætlar sér að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar og verja þar gullið sitt frá því í Ríó fyrir fimm árum. Jonathan Korir sem varð annar í Twente í dag hljóp á tíma sem var 2:10 mín lakai en tími Kipchoge.

Yfir bestu tíma sögunnar í maraþoni á Kipchoge ekki aðeins besta tímann, heldur er hann líka skráður með þriðja besta tímann og raðar sér líka í sæti 10, 17, 30, 33, 38, 47 og með hlaupinu í dag hljóp hann á 55. besta tíma sem nokkur maður hefur hlaupið maraþon á frá upphafi.

Þjóðverjinn Katharina Steinrück kom fyrst kvenna í mark í Twente í dag á tímanum 2:25:59 klst.