Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íslensk keramikarfleifð hætt komin í jarðskjálftahrinu

Mynd: Hönnunarsafn Íslands / RÚV

Íslensk keramikarfleifð hætt komin í jarðskjálftahrinu

18.04.2021 - 11:00

Höfundar

Deiglumór nefnist sýning sem stendur yfir í Hönnunarsafni Íslands og fjallar um tímabilið 1930-1970, þegar listamenn unnu keramik úr íslenskum leir. Litlu mátti muna að illa færi fyrir brothættum sýningargripum í jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga.

Tilefni sýningarinnar er samnefnd bók eftir þær Ingu S. Ragnarsdóttur myndhöggvara og Kristínu  G. Guðnadóttur. Hún byggist á rannsóknum Ingu og fjallar um aðdraganda og þróun íslenskrar leirlistar á árunum 1930-1970. Sýningarefnið er Ingu skylt í orðsins fyllstu merkingu, því hún er dóttir Ragnars Kjartanssonar, stofnanda Funa og eins af frumkvöðlum íslenskrar leirlistar. „Á þessu tímabili þá var íslenskur leir notaður. Það var mikið fallið í gleymsku og okkur langaði til að rifja það upp,“ segir Inga. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hönnunarsafn Íslands - RÚV
Guðmundur frá Miðdal var lykilmaður í leirlist.

Guðmundur frá Miðdal, var lykilmaður í leirlist því það var hann sem náði að þróa blöndu úr íslenskum leir sem hægt var að nota. Guðmundur fór út 1928 og var heilt ár í München á verkstæðinu þar sem hann lærði hjá König Bauer. Þar gerði tilraunir til að fá hina einu réttu blöndu til að geta unnið íslenska leirinn.  

Sýningunni er skipt upp í sex hluta eftir helstu leirmunaverkstæðunum á tímabilinu. Inga segir að helsta einkennið á verkstæðunum hafi verið algjör samruni á framleiðslu nytjagripa og myndlistar. „Það voru alltaf starfandi bæði handverksmenn og listamenn á verkstæðunum og það held ég að hafi verið frjótt samstarf.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hönnunarsafn Íslands - RÚV
Inga S. Ragnarsdóttir rannsakaði aðdraganda og þróun íslenskrar leirlistar.

Það skall hurð nærri hælum í upphafi sýningarinnar því hinir viðkvæmu sýningargripir voru ekki fyrr komnir upp en jörð tók að skjálfa á suðvesturhorninu. „Þú getur ímyndað þér hvað við vorum hræddar um að hefði gerst en sem betur fer lét Þóra Sigurbjörnsdóttir sýningarstjóri okkur vita að ekkert hefði brotnað. Svo var öllu pakkað niður í bómull. Sýningin var opin en meira og minna í kössum.“  

Íslenski leirinn kom að miklu leyti frá Búðardal. Hann var erfiður í vinnslu fór með tímanum halloka fyrir innfluttum leir. Inga trúir þó að íslenski leirinn fái uppreist æru. „Ég trúi því að fleiri myndlistarmenn fari að nota íslenska leirinn enda eru þó nokkrir að vinna með hann í dag.“ 

Hún segist verða vör við aukinn áhuga á keramiki. „Ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega. Það er örugglega því að nú í dag er mikil þörf fyrir að jarðtengja sig.“  

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Hönnun

Úr bankanum í leirinn