Ekki víst að hert eftirlit hefði komið í veg fyrir smit

18.04.2021 - 19:40
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir ekki víst að eftirlit eins og það sem er fyrirhugað með fólki við komuna frá útlöndum hefði komið í veg fyrir stórt hópsmit í leikskóla sem rakið er til landamærasmits. Einstaklingur sem kom til landsins um mánaðamót virti ekki reglur um fimm daga sóttkví. Sóttvarnayfirvöld höfðu afskipti af viðkomandi og beindu máli hans fljótlega til lögreglu. Smitið kom í ljós við seinni sýnatöku.

Þetta sagði Víðir í viðtali í kvöldfréttum sjónvarps. „Af því að við beinum því mjög fljótt til lögreglunnar þá er ég ekki viss um að  þetta eftirlit eins og við höfum verið að hugsa það hefði getað komið í veg fyrir þetta. Þetta var þannig mál,“ sagði Víðir um sóttkvíarbrotið og hópsmitið. „Við vorum búnir að vera að hafa afskipti af viðkomandi. Síðan greinist hann jákvæður í seinni sýnatöku og þá er málið bara komið af stað.“ Þetta sagði Víðir aðspurður um hvort endurskoða þyrfti reglur um eftirlit á landamærunum. Hann sagði unnið að því að auka eftirlit með því að fólk virti sóttkví.

Mikil áhersla var lögð á að fá fólk í sóttkví um helgina vegna hópsmitsins á Jörfa, en einnig vegna smita sem greindust í Íslensku sjávarfangi og á Íslenska barnum. Víðir segir að fleiri smit hafi greinst í dag. „Við erum að sjá nokkra einstaklinga vera að koma inn núna og við erum að vinna í þeim málum.“

Víðir sagði rakningu smita hafa gengið ágætlega. Meðal annars hefði tekist að rekja tvö smitanna sem greindust í gær og ekki tengjast leikskólanum. Viðkomandi var á Íslenska barnum 9. apríl. Forsvarsmenn hans hafa látið almannavarnir hafa lista yfir þá sem voru á staðnum það kvöld og kvatt fólk til að fara í skimun.

Ræða framhaldið í fyrramálið

Engin ákvörðun hefur verið tekin um að herða sóttvarnaaðgerðir innanlands vegna hópsmitsins í Jörfa. „Við erum ekkert farin að ræða það. Það er verið að skoða það útfrá því hvernig þetta greinist í dag og hvernig tölurnar verða á morgun. Við ætlum að hittast í fyrramálið og fara yfir málin en áherslan í dag er á að ná utan um þetta og koma sem flestum í skimun sem tengjast þessu með einum eða öðrum hætti,“ sagði Víðir.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Leikskólinn Jörfi.