Brunaútkall vegna elds sem enginn var

Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Allt tiltækt slökkvilið var sent að blokk í vesturborg Reykjavíkur um eittleytið í nótt, þegar tilkynning barst frá áhyggjufullum nágranna sem sá eldglæringar í gegnum glugga íbúðar á áttundu hæð. Þegar að var komið reyndist þó enginn eldur loga í íbúðinni heldur á stórum flatskjá í stofunni.

Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins treysti sér ekki til að fullyrða hvort eldurinn á flatskjánum hafi logað í Geldingadölum eða kvikmynduðum arni. Í samtali við fréttastofu sagðist hann þó vona að slökkviliðsmenn hafi ekki verið að trufla rómantíska kvöldstund þeirra sem horfðu. 

Sem fyrr segir var mannskapur frá öllum stöðvum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sent af stað þegar tilkynnt var um eldinn og er það í samræmi við vinnureglur slökkviliðsins þegar tilkynnt er um eld í fjölbýli. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV