Bargestir 9. apríl boðaðir í skimun

18.04.2021 - 18:36
Mynd með færslu
 Mynd: Íslenski barinn
Föstudaginn 9. apríl var COVID-sýktur einstaklingur á Íslenska barnum á Ingólfsstræti í Reykjavík. Þeir sem voru á barnum þann dag kunna að hafa verið útsettir fyrir COVID-19 og því hvattir til að fara í skimun. Þeir þurfa ekki að fara í sóttkví en eru beðnir að halda sig til hlés þar til niðurstaða berst. Frá þessu greinir barinn á Facebook og Vísir.is vakti athygli á færslunni í kvöld. 

 

„Við höfum verið í góðu samstarfi við rakningarteymi almannavarna og nú þegar hafa skráningar á gestum okkar 9. apríl verið sendar á rakningarteymið. Til þess að vera örugg sendum við lista úr báðum sóttvarnarhólfum hjá okkur og því ættu allir þeir aðilar að fá skilaboð með strikamerki fyrir skimun,“ segir í færslunni.

„Að lokum viljum við minna á að Íslenski Barinn leggur ríka áherslu á að tryggja heilsu og öryggi viðskiptavina, starfsmanna og samfélagsins í heild. Við höfum alltaf fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og almannavarna í einu og öllu,“ segir þar jafnframt.