Allt í bál og brand milli UEFA og stóru liðanna

epa09135868 Liverpool's Trent Alexander-Arnold in action during the UEFA Champions League quarter final, second leg soccer match between Liverpool FC and Real Madrid in Liverpool, Britain, 14 April 2021.  EPA-EFE/Peter Powell
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Allt í bál og brand milli UEFA og stóru liðanna

18.04.2021 - 16:25
Svo virðist sem sex af stærstu fótboltafélögum Englands í félagi við þrjú stærstu liðin á Ítalíu og þrjú stærstu á Spáni ætli sér að stofna sérstaka ofurdeild. UEFA, Evrópska knattspyrnusambandið í samstarfi við knattspyrnusambönd Englands, Spánar og Ítalíu stendur í hótunum við félögin fyrir vikið.

Félögin sem um ræðir vilja kljúfa sig út úr Meistaradeild Evrópu og Evrópudeild UEFA til að stofna sína eigin ofurdeild og reyna að hámarka tekjumöguleika sína enn frekar. Þetta hefur eðlilega farið mikið fyrir brjóstið á forráðamönnum UEFA sem í samráði við knattspyrnusambönd viðkomandi landa hafa nú hótað að reka félögin úr deildarkeppnum viðkomandi landa ef af stofnun ofurdeildarinnar verður.

Félögin sem eiga í hlut eru Liverpool, Manchester United, Arsenal, Chelsea, Tottenham, Manchester City, Juventus, Inter Mílanó, AC Milan, Barcelona, Real Madríd og Atlético Madríd. Ekkert samkomulag er þó í höfn við Bayern München í Þýskalandi eða við PSG í Frakklandi en áætlanir ofurdeildarinnar gera ráð fyrir 15-18 liða deild.

Það er því allt í bál og brand milli UEFA og stærstu knattspyrnufélaga Evrópu. Ljóst er að framvinda mála verður í það minnsta fróðleg.

Liðin sex í ensku úrvalsdeildinni vilja þó halda áfram í þeirri deild. Hins vegar þurfa þau leyfi frá ensku úrvalsdeildinni til þess. Það verður þó ekki auðfengið miðað við viðbrögð UEFA, knattspyrnusamböndum Englands, Spánar og Ítalíu og yfirvalda í deildunum. Liðin þyrftu þá að segja sig úr ensku úrvalsdeildinni til að fara í ofurdeildina. Það myndi setja leikmenn liðanna sem færu í ofurdeildina hins vegar í hættu á að vera útilokaðir frá mótum á vegum UEFA og FIFA, svosem EM og HM landsliða.