Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirbýr flug og auglýsir eftir framkvæmdastjórum

17.04.2021 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Lággjaldaflugfélagið Play sem stefnir á að hefja starfsemi á næstu mánuðum auglýsir eftir tveimur framkvæmdastjórum í dag. Annars vegar er auglýst eftir framkvæmdastjóra fjármálasviðs og hins vegar framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs. Stefnt sé að því að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað First North. Félagið er ekki komið með flugrekstrarleyfi en verið er að leggja lokahönd á þá vinnu, samkvæmt auglýsingunni.

Fréttir hafa verið sagðar af því undanfarið að Play hafi klárað fjármögnun og stefni á að hefja flug í júní. Auglýst er eftir tveimur lykilstjórnendum í atvinnuauglýsingablaði Fréttablaðsins í dag og níu daga frestur gefinn til að sækja um starfið. 

Samkvæmt auglýsingunni er flugfélagið búið að tryggja sér Airbus 321 neo flugvélar, áhafnir og lendingarleyfi. Hlutafjárútboði upp á ríflega sex milljarða er lokið og Birgir Jónsson hefur verið ráðinn forstjóri. Þar kemur einnig fram að á næstu vikum og mánuðum er fyrirhugað að skrá félagið á verðbréfamarkað First North, leggja hönd á öflun flugrekstrarleyfis, hefja sölu flugmiða og byrja að fljúga.

Forsvarsmenn Play hafa ekki gefið kost á viðtölum og segjast bíða með allar yfirlýsingar þar til þeir kynna starfsemina innan skamms. Birgir Jónsson forstjóri segist á Facebook-síðu sinni að verkefnið verði erfitt, flókið og hratt en skemmtilegt.