Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sumir færast til en aðrir missa vinnuna

Mynd með færslu
 Mynd: 360° vefur - Já.is
Frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um opinberan stuðning við nýsköpun er orðið að lögum og í þeim felst að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður. Sumir starfsmenn miðstöðvarinnar færast til í starfi en aðrir missa vinnuna.

Stofnað verður tæknisetur með áherslu á stuðning við frumkvöðla og sprotafyrirtæki og tvær deildir Nýsköpunarmiðstöðvar, rannsóknardeild byggingariðnaðarins og efnis-, líf- og orkutæknideild færast þangað. Frumkvöðlasetur miðstöðvarinnar mun einnig heyra undir tæknisetrið og settur verður á fót nýr sjóður fyrir rannsóknir í byggingariðnaði. Starfsemi Efnagreininga hjá Nýsköpunarmiðstöð var í upphafi ársins flutt á Hafrannsóknastofnun og öllu starfsfólki Efnagreininga boðið starf á þeirri stofnun.

Starfsfólk miðstöðvarinnar mótmælti á sínum tíma áformum ráðherra um að leggja hana niður og sagði fyrirætlanirnar mikið áfall fyrir nýsköpunarstarf í landinu. Á meðal annarra sem gagnrýnt hafa breytingarnar eru Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Geimvísinda- og tækniskrifstofa Íslands en Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð lýstu yfir fullum stuðningi við frumvarpið. Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum á fimmtudag. Þingmenn Flokks fólksins, Miðflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en þingmenn ríkisstjórnarflokkanna studdu það auk eins þingmanns Viðreisnar.

Þegar tilkynnt var um breytingar á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar árið 2020 starfaði þar 81 starfsmaður í 73 stöðugildum. Nú starfa þar 37 starfsmenn. Atvinnuvegaráðuneytið gerir ráð fyrir að rúmlega 20 starfsmönnum verði boðið starf hjá tæknisetri eða flytjist til annarra stofnanna. Af þeim um þrettán sem þá eru eftir má búast við að einhverjir fari á biðlaun og aðrir á uppsagnarfrest.