Sauðfjárverndin var aðeins einn maður

Mynd: Morgunblaðið / Timarit.is

Sauðfjárverndin var aðeins einn maður

17.04.2021 - 17:04

Höfundar

Björgvin Þ. Valdimarsson, tónskáld og kórstjóri, var aðeins ungur drengur þegar hann kynntist Jóni Konráðssyni, kennara og sauðfjárunnanda. Með þeim þróaðist einstök vinátta sem varði allt til æviloka Jóns. Jón var mikill dýravinur og baráttumaður fyrir velferð íslensku sauðkindarinnar.

Margrét Blöndal ræddi við Björgvin í þættinum Sögum af landi á Rás 1 og forvitnaðist um þennan merkilega mann, Jón Konráðsson, og þá sérstaklega um ákveðna starfsemi sem Jón rak í þágu íslensku sauðkindarinnar. 

Skagfirðingur sem vildi verða bóndi

Jón fæddist í Skagafirðinum og ólst þar upp. Draumur hans var að verða bóndi og hann fór meira að segja í Bændaskólann. Sökum fötlunar gat Jón hins vegar ekki stundað bændaskólanámið, en annar fóturinn var styttri en hinn auk þess sem mjaðmirnar höfðu skaddast við fæðingu. Hann lauk þess í stað prófi frá Kennaraskólanum, hóf búskap á Snæfellsnesi en fluttist að lokum á Selfoss og starfaði þar sem kennari. 

Hét á sauðkindina á spítalanum

Björgvin lýsir Jóni sem miklum merkismanni, fjölhæfum og skarpgreindum. Það var svo eitt árið að Jón veiktist alvarlega og þurfti að leggjast inn á spítala. Björgvin var þá átta ára gamall og var hvattur af móður sinni til að heimsækja fjölskylduvininn Jón á spítalann. Björgvin man vel eftir þessum heimsóknum og rifjar upp að þarna hafi Jón ákveðið að sækja styrk til íslensku sauðkindarinnar. 

„Jón hét því að ef hann næði heilsu og kæmist heim aftur, þá ætlaði hann að nýta alla sína krafta fyrir sauðkindina. Og hann stóð svo sannarlega við það.“ 

Sauðfjárverndin stofnuð

Jón hresstist og komst heim af spítalanum. Hann stóð við heiti sitt og stofnaði Sauðfjárverndina, starfsemi sem vann að velferð sauðkindarinnar. Þá fór Jón að skrifa greinar og auglýsa í útvarpinu. Hér er dæmi um eina slíka útvarpstilkynningu:

Smalamenn. Íslendingar.

Hundbeitið ekki kindur. Sýnið sauðfé ávallt nærgætni í allri umgengni. Setjið ykkur í spor kindarinnar. Sauðkindin er fíngerð og viðkvæm. 

Sauðfjárverndin. 

Orgelið heillaði ungan Björgvin 

Vinátta þeirra Björgvins og Jóns byrjaði að þróast eftir að Jón kom heim af spítalanum. Í byrjun var það orgelið hjá Jóni sem heillaði Björgvin mest. „Ég fer að heimsækja hann nánast daglega þegar hann kemur heim. Ég hafði mikinn áhuga á tónlist, sérstaklega kóratónlist. Átti segulbandstæki og tók upp úr útvarpinu. Hlustaði mikið á kóra á þessu tímabil og langaði mikið að læra á hljóðfæri. Og ég sá að Jón átti orgel, en það var ekki til neitt hljóðfæri heima. Og ég er nú viss um að það hafi nú haft sitt að segja,“ segir Björgvin.  

Margrét Blöndal ræddi við Björgvin Þ. Valdimarsson í þættinum Sögum af landi á Rás 1. Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lömbin jörmuðu hátt til heiðurs afmælisbarninu

Norðurland

Lömbin hans Geirmundar fá nöfn — „Síminn stoppaði ekki“

Bláskógabyggð

Nota dróna til að smala sauðfé

Landbúnaðarmál

Sauðfé hefur fækkað um 50 prósent í landinu