Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óttast að indverskt afbrigði dreifist um Bretland

17.04.2021 - 16:11
epa09009140 Ambulance staff push a bed with an patient outside the Royal London hospital in London, Britain, 13 February 2021. Britain's National health service (NHS) has been under sever pressure even as Covid-19 hospital admissions continue to fall across the UK.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breskir sérfræðingar mæltu í dag með því við heilbrigðisyfirvöld þar í landi að Indlandi yrði bætt við á rauðan lista yfir þau lönd sem stöngustu ferðatakmarkanir gilda um. Sérfræðingarnir vara sérstaklega við nýju afbrigði veirunnar sem greinst hefur á Indlandi og óvíst er að bóluefnin sem nú eru í notkun virki eins vel á og önnur afbrigði. Næstum helmingur Breta hefur verið bólusettur.

Breska blaðið Guardian hefur það eftir Danny Altmann, prófessor við Imperial-háskólann í London, að það sé óskiljanlegt að fólki sem kemur frá Indlandi sé ekki gert að dvelja í sóttvarnarhúsum. Hann segir indverska afbrigðið meiri háttar áhyggjuefni og að hætt sé við því að það setji úr skorðum áætlanir Breta um tilslakanir innanlands. Nú þegar hafa 77 greinst með indverska afbrigðið í Bretlandi.

Um ríki á rauðum lista breskra yfirvalda gildir að þaðan má ekki ferðast, og fólk sem þar hefur verið síðustu tíu daga má ekki koma til landsins. Undanskildir eru þó breskir og írskir ríkisborgarar, en þeir þurfa að dvelja í sóttvarnarhúsi í tíu daga eftir komuna til landsins. Guardian hefur það eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar að listinn sé í sífelldri endurskoðun.