„Kviknaði á gömlum minningum frá Kröflu“
Það voru margir farnir að efast um að það myndi nokkuð gjósa á Reykjanesskaganum, eftir spennuþrungnar vikur í lok febrúar og mars þar sem skolfið hafði ótæpilega. Þegar dró úr skjálfavirkninni bentu jarðvísindamenn samt á að áður en eldgos eða kvikuhlaup urðu í Kröflu hafi einmitt dregið úr skjálftavirkni og aflögun. Föstudagskvöldið 19. mars seitlaði svo kvika upp á yfirborðið.
„Eins og ég sagði þá er Krafla allsherjar lexía í mismunandi atburðarás sem tengist kviku og spennu á flekaskilum og þetta hefur verið okkur ómetanlegt að geta vísað til baka í atburðarás og sérstaklega þegar þarf að túlka eitthvað sem kemur svolítið á óvart eins og þegar skyndilega dró úr skjálftavirkni núna við Fagradalsfjall,“ segir Páll.
„Það kviknaði á gömlum minningum frá Kröflu, því þetta gerðist jafnvel á undan stærstu kvikuhlaupunum og stærri gosunum að síðasta viðvörunin um að nú sé komið að gosi eða kvikuhlaupi var gjarnan sú að það dró úr hraða atburðarásarinnar, það var eins og þegar það var byrjað að bresta í þá linaðist á öllu, þá fór að losna um spennuna, ekki með hávaða og látum heldur var allt orðið svo lint og þjált að það gaf eftir án skjálfta.“
Nú eru hljóðlát gos á flekaskilum staðfest í reynslubankanum
Páll segir að það hafi reynst jarðvísindamönnum nokkuð heilladrjúgt að hafa Kröfluelda í huga þegar dró úr skjálftum á Reykjanesskaga.
„Að blása ekki atburðarásina af þegar slaknaði á skjálftavirkninni heldur þvert á móti vorum við á sérstöku varðbergi. Reyndar var byrjunin svo hljóðlát að það sást ekki á nokkru mælitæki og mælitækin eru okkar augu og eyru til að fylgjast með hvað er að gerast í neðra. Þannig að við vorum svolítið blind og heyrnarlaus þegar skjálftarnir hættu. Þegar þetta byrjaði svo með þessum rólegheitum voru margir sem trúðu ekki sínum eigin augum eiginlega.“
Er þetta þá komið í reynslubankann?
„Þetta er staðfest í reynslubankann þar með og er ekki bara bundið við atburðarás eins og í Kröflu heldur virðist þetta vera nokkuð almennara lögmál sem kannski gildir á flekaskilium af þessu tagi sem við höfum á Íslandi,“ segir Páll. „Um þessa hlið málsins er einmitt verið að skrifa núna vísindaritgerð um það hvernig aðdragandi gosa getur verið, hversu hljóðlátur hann getur verið.“