Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kröflueldar – fyrir þá sem þurfa að rifja upp

Mynd: Roger Goodman / Creative Commons
Jarðvísindamenn vísa oft til Kröfluelda þegar kvika fer á kreik. Samkvæmt afar óformlegri könnun Spegilsins meðal fólks á fimmtugsaldri og niður úr er greinilegt að fáir vita mikið um þessar margívitnuðu jarðhræringar. Það eru rúm 45 ár frá því að fyrst gaus við Kröflu, 20. desember 1975, og síðasta gosinu þar lauk 18. september 1984. Páll Einarsson jarðeðlisfræðiprófessor segir að Kröflueldar hafi verið allsherjar lexía í mismunandi atburðarás sem tengist kviku og spennu á flekaskilum.

„Þarna sé ég einn, tvo, þrjá gíga“

Þegar fyrstu eldsumbrotanna varð vart flaug Kári Jónasson fréttamaður yfir gosið með vél Flugstöðvarinnar í Reykjavík. Hann fékk að nýta flugbylgjuna og þannig var hægt að nota flugvélaradíóið til að komast í beina útsendingu í Ríkisútvarpinu. Úr flugvélinni sáu Kári og aðrir sem í vélinni voru gosmökkinn þegar þeir flugu yfir Ljósavatnsskarði. Þegar nær dró sáust reykjarstrókarnir í Bjarnarflagi, sem Kári sagði mjög litla í samanburði við strókana sem stóðu upp af gosinu.

„Nú erum við komnir mjög nálægt gosstöðvunum. Mér virðist að það gjósi á tveimur stöðum eiginlega. Það er sprunga með nokkrum gígum. Þarna sé ég einn, tvo, þrjá gíga; ekki treysti ég mér nú til að segja til um hvað sprungan er löng,“ sagði Kári í beinni úr vélinni. 

Og þannig fengu landsmenn fyrstu lýsingu á gosinu, nema þá þeir sem þegar voru mættir að skoða það, því úr vélinni sást til fólks að virða eldsumbrotin fyrir sér. 

Mynd: Ómar Ragnarsson / RÚV
Hér má hlýða á Kára Jónasson fréttamann í beinni úr flugvél að skoða fyrsta gosið við Kröflu 1975.

„Nú er eitthvað mikið að gerast í Kröflu“

„Ég man alveg eftir þessu fyrsta gosi í Kröflu, því það byrjaði með miklum látum, þetta var örlítið gos en það var mjög kröftugt þegar það byrjaði og aðdragandinn, þessi síðasti eftir að þetta er farið af stað, var svo kröftugur að fyrsta melding sem ég fékk var frá Einari bónda á Skammadalshóli í Mýrdal. Hann var með skjálftamæli. Hann hringdi í mig og sagði: „Nú er eitthvað að gerast í 270 km fjarlægð frá mér.“ Og það var Krafla,“ segir Páll. 

„Svo kom melding frá Húsavík frá Hirti Tryggvasyni sem þá var skjálftavörður okkar á Húsavík og hann sagði: „Nú er eitthvað mikið að gerast í Kröflu.“ Þeir tveir urðu þeir fyrstu sem urðu varir við og sáu að það var eitthvað mjög óvenjulegt að gerast í jarðskorpunni.“

Skjáskot af Skjálftabréfi Raunvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofu Íslands 6. janúar 1976.
 Mynd: Jarðvísindastofnun Háskóla ?
Skjáskot af Skjálftabréfi Raunvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofu Íslands frá 6. janúar 1976.
Skjáskot úr fréttir aldarinnar. Eldgos í Kröflu 1975.
 Mynd: RÚV
Rýnt í rit skjálftamælis.

Margívitnaðir atburðir en mörgum hulin ráðgáta

Jarðhræringarnar við Kröflu voru fyrsta stóra verkefni Páls Einarssonar eftir að hann kom úr námi. Sannkölluð eldskírn. Enda man Páll atburðina eins og gerst hefðu í gær.

En það gildir ekki um alla aðra. Samkvæmt afar óformlegri og lauslegri könnun Spegilsins meðal fólks á fimmtugsaldri og niður úr er greinilegt að fáir vita mikið um þessar margívitnuðu jarðhræringar. Og því biður Spegillinn Pál að rifja upp hvað það var sem gerði Kröfluelda svona merkilega. Og það vill svo til að þau Bryndís Brandsdóttir vísindamaður við Raunvísindastofnun hafa nýlega birt vísindagrein um Kröfluelda. Það er enda af nógu að taka.

Alltaf sama stef, en með tilbrigðum

„Kröflueldar voru í fræðunum hin stóra lexía í því hvernig flekaskilin á Íslandi bregðast við þegar þau bresta,“ útskýrir Páll. „Það var margt sem kom á óvart og þetta stóð lengi. Þetta var atburðarás sem að einkenndist af endurtekningum. Við fengum kvikuinnskot frá megineldstöð 20 sinnum og aldrei alveg nákvæmlega eins og áður en það var alltaf sama stefið, bara með tilbrigðum. Þetta var náttúrulega ómetanlegt því að það var nú alltaf verið að mæla eitthvað til að finna út hvernig þetta raunverulega var og oft mistókust nú mælingarnar.“

Páll bendir á að mælitæknin hafi ekki verið komin á það stig sem hún er í dag. En vegna þess að atburðarásin var svo svipuð trekk í trekk var hægt að endurtaka mælingarnar í næsta kvikuinnskoti. 

„Með þessu var hægt að sjá atburðinn aftur og aftur frá mismunandi sjónarhornum og mismunandi stærðum og mismunandi ákafa. Þetta var náttúrulega alveg ómetanlegt til að átta sig á því hvað raunverulega var að gerast undir yfirborði jarðar þar sem menn sáu náttúrulega ekki til.“

Kröflukerfið nær frá botni Axarfjarðar og um 90-100 kílómetra inn í land. Krafla er megineldstöðin og er skammt frá Mývatni. Rétt fyrir jól 1975 tók að gjósa við Leirhnjúk. Forboði þess var aukin skjálftavirkni. Einmitt á þessum tíma var verið að reisa Kröfluvirkjun í næsta nágrenni, umdeilda af ýmsum ástæðum, og menn voru órólegir yfir því að mannvirkin yrðu fyrir tjóni. 

Kvika kom upp á yfirborðið með eldgosum níu sinnum á árunum 1975 til 1984 en oftar komst hún ekki upp heldur þrengdi sér leið neðanjarðar með tilheyrandi jarðhræringum. Jörð seig mikið, það myndaðist nýtt stöðuvatn í Kelduhverfi, Skjálftavatn, og stóri jarðskjálftinn við Kópasker 1976, skjálfti upp á 6,3, var hluti af þessum atburðum.

Mynd: RÚV / RÚV
Talsverðar skemmdir urðu á mannvirkjum á Kópaskeri, eins og sjá má á myndskeiði sem Ómar Ragnarsson fréttamaður tók í bænum daginn eftir skjálftann.

Jörð gliðnaði um átta til níu metra þar sem mest var

Áður en brast á með Kröflueldum á áttunda áratug síðustu aldar, hafði síðast gosið í Mývatnseldum á átjándu öld, 1724-1729. Þá hafði ekki gosið í mörg hundruð ár á svæðinu.

Það sem gerðist við Kröflu í Kröflueldum voru ekki bara endurtekin eldgos. „Það var kvikuinnskot og gliðnun á flekaskilunum,“ bendir Páll á. „Krafla er flekaskilaeldfjall, hún er beint á flekaskilunum á milli Norður-Ameríku og Evrasíu. Þessi umbrot tóku 80 km stykki af flekaskilunum sem gliðnuðu þá um marga metra á meðan þessu stóð. Það var atburðurinn sem í raun og veru var í gangi. Kvikuframleiðslan var í raun og veru hliðarafurð, kvikan tók þátt. Þarna voru gríðarlegar færslur í gangi. Þetta er mjög stór atburður, Kröfluatburðurinn, 80 km stykki af flekaskilunum gliðnaði allt upp í 8-9 metra á þessu tímabili sem var. Þannig að það var hinn raunverulegi atburður sem gerðist.“

Ákveðin líkindi með Kröflueldum og nýja gosinu á Reykjanesskaga

„Svipað er kannski upp á teningnum á Reykjanesi, atburðirnir sem hafa verið í gangi og eru í gangi,“ segir Páll. "Það eru atburðir sem taka til, það er nú sennilega tilviljun, en það eru rúmlega 80 km af flekaskilunum sem hafa tekið þátt í þessu fram til þessa. Það er partur af flekaskilunum alveg frá Kleifarvatni og út eftir öllu Reykjanesi og að minnsta kosti út undir Eldey. Á þessu tímabili, á 15-16 mánuðum, hafa orðið endurteknar skjálftahrinur sem eru stærri en við höfum séð þar áður og þessi virkni hefur verið að hlaupa fram og til baka eftir flekaskilunum og með kvikuinnskotum líka. Þannig að það eru skjálftar, kannski fyrst og fremst, en það hafa verið innskot að minnsta kosti á þremur mismunandi stöðum á þessum flekaskilum á þessu tímabili.“

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Sumt er líkt með hræringum við Fagradalsfjall og Kröflu. Annað ekki.

Síðasta hrinan á Reykjanesskaga, sú sem hófst 24. febrúar, í ár og er fólki á suðvesturhorninu í fersku minni vegna stöðugra skjálfta, er sú langstærsta fram til þessa. Páll bendir á að þannig hafi atburðarásin verið að sækja í sig veðrið á þessu rúma ári síðan skjálftahrinurnar á Reykjanesskaganum hófust fyrir alvöru. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg
Páll og fleiri jarðvísindamenn sögðu, daginn eftir að gosið í Fagradalsfjalli hófst, að það væri ræfilslegt. Það lá við að þjóðinni sárnaði fyrir hönd gossins.

„Þannig að þetta afllitla gos sem er í gangi er partur af þessari atburðarás, en alls ekki stærsti parturinn, flekahreyfingarnar eru í raun og veru það sem kveður langmest að í jarðfræðilegum skilningi. Þessu svipar til Kröflu á ýmsan hátt en alls ekki á allan hátt, þetta er að mörgu leyti mjög ólíkt.“

Páll minnir á að flekaskil á Reykjanesskaganum séu gjörólík þeim sem eru á norðurgosbeltinu, þeim sem Krafla situr á.

„Það er þessi þátttaka kviku í færslunum sem er svipuð að sumu leyti,“ segir hann. „Það er ólíkt til dæmis að við erum ekki með þetta stóra kvikuhólf eins og í Kröflu sem var eins og hálfgerður nafli atburðanna á sínum tíma. Það virðist ekki vera neitt slíkt í gangi á Reykjanesi, en kvikugangurinn sem byrjaði að myndast þarna undir Fagradalsfjalli 24. febrúar gegnir einhvers konar svipuðu hlutverki. Hann hefur verið það sem að skammtar atburðarásina fram að þessu, að minnsta kosti síðasta mánuðinn eða svo,“ segir Páll.

„Kviknaði á gömlum minningum frá Kröflu“

Það voru margir farnir að efast um að það myndi nokkuð gjósa á Reykjanesskaganum, eftir spennuþrungnar vikur í lok febrúar og mars þar sem skolfið hafði ótæpilega. Þegar dró úr skjálfavirkninni bentu jarðvísindamenn samt á að áður en eldgos eða kvikuhlaup urðu í Kröflu hafi einmitt dregið úr skjálftavirkni og aflögun. Föstudagskvöldið 19. mars seitlaði svo kvika upp á yfirborðið

„Eins og ég sagði þá er Krafla allsherjar lexía í mismunandi atburðarás sem tengist kviku og spennu á flekaskilum og þetta hefur verið okkur ómetanlegt að geta vísað til baka í atburðarás og sérstaklega þegar þarf að túlka eitthvað sem kemur svolítið á óvart eins og þegar skyndilega dró úr skjálftavirkni núna við Fagradalsfjall,“ segir Páll. 

„Það kviknaði á gömlum minningum frá Kröflu, því þetta gerðist jafnvel á undan stærstu kvikuhlaupunum og stærri gosunum að síðasta viðvörunin um að nú sé komið að gosi eða kvikuhlaupi var gjarnan sú að það dró úr hraða atburðarásarinnar, það var eins og þegar það var byrjað að bresta í þá linaðist á öllu, þá fór að losna um spennuna, ekki með hávaða og látum heldur var allt orðið svo lint og þjált að það gaf eftir án skjálfta.“

Nú eru hljóðlát gos á flekaskilum staðfest í reynslubankanum

Páll segir að það hafi reynst jarðvísindamönnum nokkuð heilladrjúgt að hafa Kröfluelda í huga þegar dró úr skjálftum á Reykjanesskaga.

„Að blása ekki atburðarásina af þegar slaknaði á skjálftavirkninni heldur þvert á móti vorum við á sérstöku varðbergi. Reyndar var byrjunin svo hljóðlát að það sást ekki á nokkru mælitæki og mælitækin eru okkar augu og eyru til að fylgjast með hvað er að gerast í neðra. Þannig að við vorum svolítið blind og heyrnarlaus þegar skjálftarnir hættu. Þegar þetta byrjaði svo með þessum rólegheitum voru margir sem trúðu ekki sínum eigin augum eiginlega.“
 

Er þetta þá komið í reynslubankann?
„Þetta er staðfest í reynslubankann þar með og er ekki bara bundið við atburðarás eins og í Kröflu heldur virðist þetta vera nokkuð almennara lögmál sem kannski gildir á flekaskilium af þessu tagi sem við höfum á Íslandi,“ segir Páll. „Um þessa hlið málsins er einmitt verið að skrifa núna vísindaritgerð um það hvernig aðdragandi gosa getur verið, hversu hljóðlátur hann getur verið.“ 

Mynd: Ómar Ragnarsson / RÚV
Í Fréttum aldarinnar fjallar Ómar Ragnarsson um Kröfluelda.
ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV