Fleiri smit hafa greinst á Jörfa

17.04.2021 - 21:13
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Smitum sem hafa greinst á leikskólanum Jörfa í Reykjavík hefur fjölgað mikið í dag. Í morgun var greint frá því að einn starfsmaður hefði greinst með COVID-19 í gær og hefðu allir starfsmenn og börn á viðkomandi deild verið sendir í sóttkví auk stjórnenda leikskólans. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, staðfesti í samtali við fréttastofu að greindum smitum á leikskólanum hefði fjölgað í dag.

Helgi sagði að smit hefðu greinst bæði hjá starfsfólki sem hefði verið í formlegri sóttkví og starfsfólki sem hefði verið utan sóttkvíar. Helgi hafði ekki nákvæman fjölda staðfestra smita á hreinu en sagði að viðbúið væri að starfsemi leikskólans í byrjun næstu viku yrði mjög takmörkuð eða engin. Það væri þó óljóst enda væri enn unnið að því að ná utan um smitið. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru smitin allt að átta.

Bergljót Jóhannsdóttir leikskólastjóri sagðist ekki geta tjáð sig um stöðuna fyrr en hún væri búin að upplýsa foreldra leikskólabarna um hana.

Jörfi er fimm deilda leikskóli í Bústaðahverfi í Reykjavík og þar eru allt að 98 börn hverju sinni.

Helgi segir að brugðist hafi verið hratt við og starfsfólk þegar í gær beðið að koma sér úr tengslum við annað fólk meðan verið væri að greina stöðuna, þótt svo það væri ekki í formlegri sóttkví. Það hefði meðal annars verið gert svo fólk væri ekki í tengslum við aðra um helgina meðan hætta væri á að fleiri smit ættu eftir að greinast. Hann sagði viðbúið að lungi starfsmanna þyrfti að fara í sóttkví en það væri enn óráðið.

Uppfært 21:54 Í kvöld var foreldrum og starfsfólki sent bréf þar sem upplýst var að fleiri smit hefðu bæst við. Þar kom fram að allir starfsmenn, öll börn, foreldrar og allir á heimilum þeirra eiga að fara í sóttkví frá og með morgundeginum til 23. apríl. Fólk fær svo nánari upplýsingar frá smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis á næstu dögum. Starfsmenn og börn þurfa að fara í sýnatöku á sjöunda degi. Fram kemur í bréfinu að hugsanlega geti annað foreldrið verið í sóttkví með barni en hitt foreldrið verði þá að fara út af heimilinu og sama eigi við um önnur börn á heimilinu.