Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

100 starfsmenn matvælafyrirtækis í skimun eftir smit

17.04.2021 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tvö kórónuveirusmit sem greindust utan sóttkvíar í gær eru rakin til matvælafyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að skima hundrað starfsmenn fyrirtækisins og tugir eru í sóttkví. 

Tvö smit greindust innanlands í gær, bæði utan sóttkvíar. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs, segir að smitrakning hafi leitt í ljós tengsl á milli þeirra.  

„Og svona til að skoða það betur erum við að skima stóran vinnustað, matvælafyrirtæki sem margir vinna hjá. Það er óljóst hvernig það gerðist innan fyrirtækisins, sóttvarnir virðast hafa verið í lagi að mestu leyti en við vildum ekki taka neina sénsa og skimuðum alla starfsmenn,“ segir Víðir.

Hvar er þessi vinnustaður á landinu og hversu marga er um að ræða? „Þetta eru 100 manns í heildina en þeir eru ekki allir að vinna á sama stað. Fyrirtækið er með aðalaðsetur á höfuðborgarsvæðinu en starfsmennirnir eru á fleiri stöðum.“

Víðír segir að ekki liggi fyrir hversu margir þurfi að fara í sóttkví vegna þessara smita.  „Það er ekki endanlegt. En það eru einhverjir tugir nú þegar og svo verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr skimununum í dag.“

Þetta er matvælafyrirtæki - þarf fólk að hafa varann á varðandi framleiðsluvöru fyrirtækisins? „Nei, það er ekkert slíkt sem við höfum áhyggjur af,“ segir Víðir.