Villandi að bera saman orsakir blóðtappa

16.04.2021 - 19:46
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Það er villandi að bera saman hættuna á að fá blóðtappa af völdum bóluefnis við aðrar orsakir blóðtappa, segir Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir á blóðmeinafræðideild Landspítala. Þá sé lúxusvandamál að geta forgangsraðað bóluefnum og langt gengið að hætta alveg að gefa sum þeirra.
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Myndin sem hefur verið í dreifingu á Facebook.

Á mynd sem hefur verið í dreifingu í samfélagsmiðlum er hættan á blóðtöppum við að fá Astra Zeneca-bóluefnið borin saman við getnaðarvarnarpilluna, reykingar og COVID-smit. Samkvæmt henni er langólíklegast að fá blóðtappa eftir bóluefnið og líklegast eftir COVID-smit. En er þetta rétt?  „Myndin sem birtist á samfélagsmiðlum er villandi að mínu mati,“ segir Páll Torfi Önundarson yfirlæknir á blóðmeinafræðideild Landspítala.

Páll telur að um 8% fái blóðtappa eftir sjúkrahúslegu vegna COVID19, helmingi færri en myndin segir. „Tíðnin sem þeir gefa upp fyrir blóðtappa af völdum COVID er allt of há. Þetta er tíðni af gjörgæsludeildum af allra veikasta fólkinu en langflestir sem fá COVID leggjast aldrei inn á spítala, hvað þá gjörgæsludeild og þeir fá ekki blóðtappa,“ segir Páll Torfi. Þá sé langsótt að bera saman blóðtappa eftir bóluefni og reykingar. 

Lúxusvandamál að hafa val um bóluefni

Páll segir að ef ekki væri um önnur bóluefni að velja en Astra Zeneca þá yrði aldrei hikað við að nota það. „Danir völdu það að banna bóluefnið, það er ansi langt gengið. Þetta er svona lúxusvandamál. Þeir hafa val á öðru, þeir þá seinka því að það náist hjarðónæmið. Það getur kostað líka mannslíf. Þegar fleiri veikjast af COVID. Það er auðvitað miklu líklegra að deyja af COVID en þessu sjaldgæfu aukaverkunum.“

Blóðtapparnir sem greinst hafa eftir Astra Zeneca bóluefnið koma í bláæðar í heilanum og eru þess vegna alvarlegri en þeir sem koma í útlimi. Ekki hefur greinst blóðtappi í heila eftir bólusetningu hér á landi en níu hafa hins vegar fengið blóðtappa eftir bólusetningu - þar af fimm eftir Astra Zeneca-bólusetningu.  Samkvæmt upplýsingum frá lyfjastofnun er ekki hægt að fullyrða að það sé orsakasamband milli bólusetningarinnar og blóðtappans, en þó sé mynstur í tilkynningunum sem styðji þá kenningu. 

Þeirri spurningu hefur undanfarið verið velt upp hvers vegna getnaðarvarnarpillan sé áfram gefin konum þrátt fyrir hættu á blóðtappa. Páll segir þetta hafa verið vitað í sextíu ár.  „Ég er þeirrar skoðunar að konur eigi ekki að nota pilluna ef þær hafa aðrar leiðir. Sérstaklega ef þær eru búnar að eiga barn.“