Vilja staðfestingu á kaupum á smálánakröfum

16.04.2021 - 10:54
Breki Karlsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Neytendasamtökin hafa farið fram á staðfestingu á því að BPO innheimta hafi raunverulega keypt kröfur sem sendar voru í innheimtu og að kröfurnar séu réttmætar.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að samkvæmt neytendalögum verði að tilkynna lántökum um kröfuhafaskipti og lántakar verði að fá tækifæri til að bera við mótbárum. Neytendasamtökin ætli að láta Fjármálaeftirlitið fá upplýsingar um það sem þau hafa orðið áskynja í þessu máli á fundi þeirra klukkan tvö í dag. 

Fram kom í fréttum í vikunni að fyrirtækið BPO innheimta hefði keypt allt kröfusafn smálánafyrirtækjanna Kredia, Hraðpeninga, Smálána. 1909 og Múla. Alls 24 þúsund smálánakröfur sem áður voru í eigu E-Commerce. Innheimtukröfur hafi verið sendar í heimabanka á þriðjudag með eindaga sama dag. 

Í yfirlýsingu sem BPO innheimta sendi frá sér í gær segir að öllum kröfum í heimabanka verði breytt þannig að þær endurspegli einungis höfuðstól kröfunnar í samræmi við athugasemdir Neytendasamtakanna. Breki segir að Neytendasamtökin viti ekki betur en að allar kröfur BPO sem sendar voru í heimabanka seint á þriðjudag hafi verið teknar út.