Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Stefnir í algjört kaos“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Komi ríkið ekki til móts við fyrirtæki í velferðarþjónustu vegna aukins launakostnaðar, geta þau ekki haldið uppi óbreyttri starfsemi eftir maímánuð. Forstjóri Grundar segir að það stefni í algjört kaos.

Vinnuvikan styttist 1. maí vegna ákvæða í kjarasamningum og þá sjá fyrirtækin fram á að þurfa að ráða fleira fólk. Hrafnistuheimilin tilkynntu í síðustu viku um uppsagnir vegna þessa og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sendu heilbrigðisráðherra og forstjóra Sjúkratrygginga bréf í gær þar sem þau segjast telja að launakostnaður þeirra muni aukast um allt að 15%. 

Þau hafi hvorki fengið fullnægjandi upplýsingar frá Sjúkratryggingum né fjármálaráðuneytinu um hvernig bregðast eigi við þessum aukna kostnaði þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. 

Þau geti ekki staðið undir því að greiðslur frá ríkinu dragist mánuðum saman á meðan verið sé að taka ákvörðun og óska eftir skjótum viðbrögðum heilbrigðisráðherra. Innborgun á þessar hækkanir þarf að berast fyrir 31. maí, segir í bréfinu.

„Það eru á bilinu þrír til fjórir/fimm milljarðar sem þarf fyrir aðildarfélög SFV (Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu) sem eru hjúkrunarheimili, SÁÁ og fleiri félög sem veita heilbrigðisþjónustu,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundar og formaður SFV.

Verði ekki orðið við þessari beiðni - hvað gerist þá? „Þá er mjög líklegt að flest þeirra fari hreinlega í þrot því að þau þola ekki að hækka laun um einhver 10-12% á einum mánaðamótum án þess að fá peninga frá ríkinu. Við höfum ekki fjárhirslur ríkisins til að hlaupa upp á eða einhver sveitarfélög til að borga fyrir okkur reikninginn. Við þurfum að eiga þessa peninga sjálf og þeir eru ekki til í dag.“

Nú var ekki verið að skrifa undir þessa kjarasamninga í gær, þetta hefur legið fyrir í einhvern tíma. Af hverju er ekki búið að ganga frá þessu?  „Það er góð spurning. Við höfum verið að leita eftir svörum frá fjármálaráðuneytinu um hvort þetta hafi verið inni í daggjöldum heimilanna og fjárframlögum til aðildarfélaganna og fengum ekki formlegt svar frá ráðuneytinu fyrr en 8. apríl. Þannig að við gátum ekki farið fyrr af stað að óska eftir þessum auknu fjármunum fyrr en við fengum að vita að þetta væri ekki inni í daggjöldunum.“

Gísli Páll segir að sum fyrirtækjanna yrðu að hætta starfsemi, önnur skera stórlega niður. „Það yrði algjört kaos hjá þessum fyrirtækjum öllum. Einhver þeirra gætu kannski fengið lán í banka fyrir launum, en það er ekki það sem við viljum gera.“

Þessu til viðbótar hafa samtökin lengi bent á að hækka þurfi daggjöld á hjúkrunarheimilum. Úttekt á rekstri þeirra, svokölluð Gylfaskýrsla, hefur nú verið í skoðun innan heilbrigðisráðuneytisins í fimm vikur. Gísli Páll segir að í henni komi fram að „allnokkur prósent“ vanti  upp á daggjöld hjúkrunarheimila allnokkur prósent. „Ég get ekki farið út í efnislega þætti skýrslunnar því að hún verður afhent á þriðjudaginn í  næstu viku. Og það kemur engum á óvart að það vanti allnokkur prósent í daggjöldin.“

Þó þú getir ekki sagt hvað skýrslan segir hvað vanti upp á - hvað myndir þú telja að vantaði mikið upp á? „Ég held að það sé eitthvað á milli  5 og 10-12%, myndi ég giska á. Það er mín tilfinning,“ segir Gísli Páll.