Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Núningur milli ráðuneytis og Samgöngustofu

16.04.2021 - 14:29
Mynd með færslu
 Mynd: Wiki commons
Ágreiningur var á milli stjórnvalda og Samgöngustofu um hvernig haga bæri fjárhagslegu eftirliti með WOW air. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW, en þar kemur fram að stjórnvöld hafi ekki borið traust til Samgöngustofu til að sinna þessu eftirliti.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW air eru samskipti samgönguráðuneytisins og Samgöngustofu rakin og kemur fram að stjórnvöld báru ekki fullt traust til stofnunarinnar til að sinna fjárhagslegu eftirliti.

Þegar fréttir bárust af fjárhagsvandræðum WOW vorið 2018 óskaði ráðuneytið upplýsinga um hvernig framkvæmd með fjárhagseftirliti WOW var háttað. Þótti ráðuneytinu framkvæmdinni ábótavant en gaf samgöngustofu tíma til að gera bót á. Síðla sumars þótti ráðuneytinu ljóst að það hafi ekki verið gert og í byrjun september dró til tíðinda.

Afþakkaði aðstoð FME

Þá bauð ráðuneytið fram aðstoð Fjármálaeftirlitsins til að styrkja getu Samgöngustofu til að sinna hlutverki sínu. Því boði var hafnað. Ríkisendurskoðun telur einsýnt að kanna þurfi hvaða ástæður lágu að baki því að afþakka þessa aðstoð.Einnig gerði ráðuneytið athugasemdir við hversu langt var í næsta fund samgöngustofu með forsvarsmönnum WOW.

Samgöngustofa sagði þá að hún teldi WOW vera rekstrarhæft og að hún teldi sig hafa öll þau gögn sem hún þyrfti til að leggja mat á stöðuna. Þetta gagnrýnir Ríkisendurskoðun, enda í ósamræmi við þær upplýsingar sem komið höfðu fram um stöðu WOW um vorið.

Í skýrslunni segir beinlínis að stjórnvöld hafi efast um getu Samgöngustofu til að sinna fjárhagseftirliti með flugrekendum. Er vísað í minnisblað samgönguráðherra þar sem segir að jafnvel þótt Samgöngustofa nyti aðstoðar endurskoðanda, þá virtist stofnunin ekki hafa þekkingu til að vinna úr þeim upplýsingum sem þaðan kæmu.

Sendu skýr fyrirmæli eftir ítrekaðar beiðnir

Það var svo 7. september 2018 að samgönguráðuneytið sendir Samgöngustofu skýr fyrirmæli um að gera ítarlegt mat á fjárhagsstöðu WOW. Í bréfi ráðuneytisis kemur fram að ráðuneytið hefði ítrekað kallað eftir því að stofnunin brygðist við sjónarmiðum og afstöðu ráðuneytisins án þess að við því hefði orðið. Fyrirmælin voru send þegar ljóst var að Samgöngustofa hygðist ekki að eigin frumkvæði kanna fjárhagsstöðu WOW.

Það liðu tvær vikur þangað til Samgöngustofa varð við beiðni ráðuneytisins en í millitíðinni sendir Samgöngustofa ráðuneytinu bréf þar sem fram koma að stofnunin ynni þá þegar að ítarlegu fjárhagsmati. Þær upplýsingar voru rangar og segir Ríkisendurskoðun að ekki verið annað séð en að Samgöngustofa hafi veitt ráðuneytinu misvísandi upplýsingar.

Í skýrslunni segir orðrétt: „Það er alvarlegt að uppi hafi verið ágreiningur milli samgöngu-og sveitar-stjórnarráðuneytis og Samgöngustofu um hvernig bæri að haga eftirliti með svo þjóðhagslega mikilvægu fyrirtæki á viðsjárverðum tímum í rekstri þess.“