Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglumaður skaut þrettán ára dreng til bana

Mynd: EPA-EFE / CIVILIAN OFFICE OF POLICE ACCOUN
Yfirvöld í Chicago hafa gert myndskeið úr búkmyndavél lögreglumanns opinber, en það sýnir þegar 13 ára drengur var skotinn til bana undir lok síðasta mánaðar. 

Rétt er að vara við myndskeiðinu sem er hér að ofan, en það sýnir drenginn, Adam Toledo, með hendur á lofti þegar hann var skotinn í brjóstkassann. Lögreglumenn á vettvangi reyna svo að hnoða Toledo til lífs þegar ljóst er hversu illa fór.

Saksóknarar hafa haldið fram að Toledo hafi verið vopnaður og að hann hafi verið búinn að losa sig við byssu. Lori Lightfood, borgarstjóri Chicago, sagði málið afar erfitt og myndskeiðið sjokkerandi. Hún hvatti almenning til að halda ró sinni.

Mótmæli brutust út vegna málsins í Chicago í gær, sem er eitt af mörgum sem hafa komið upp á stuttum tíma. Fyrr í vikunni skaut lögreglukona blökkumann til bana við umferðareftirlit í Minnesota. Réttarhöldin yfir lögreglumanninum sem varð George Floyd að bana í fyrra hafa svo verið mjög áberandi og umræðan um harðræði lögreglu í garð blökkufólks valdið mikilli reiði í Bandaríkjunum.