Íbúðum til sölu fækkaði um 58,4 prósent á tólf mánuðum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 58,4 prósent og hvergi hefur þeim fækkað jafnmikið. Dregið hefur úr fjölda íbúða til sölu í öllum landshlutum nema á Norðvesturlandi þar sem þeim fjölgaði um 24,1 prósent. Þetta kemur fram í apríl-skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þótt nokkuð hafi dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði frá því í haust er veltan enn með mesta móti, miðað við árstíma. „Útgefnir kaupsamningar í febrúar, fyrir stök íbúðaviðskipti, voru 1.048 talsins sem er um 9,7 prósentum meira en í janúar, en sé litið á febrúar í fyrra þá var aukningin um 22 prósent milli ára,“ segir í skýrslunni

Sölutími íbúða hefur ekki verið styttri frá því mælingar hófust, hvorki á höfuðborgarsvæðinu né á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu mældist hann um 44 dagar í febrúar og 46 dagar í janúar. Lengstur mældist sölutími um 85 dagar um vorið 2015. Á landsbyggðinni mældist sölutíminn 76 dagar fjórða mánuðinn í röð.

Íbúðaverð hækkar áfram

Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mældist 7,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu í febrúar og 7,6 prósent í janúar. Í skýrslunni segir að væntingar um hækkun fasteignaverðs fari vaxandi, og vísað er í nýja skoðanakönnun sem Zenter gerði fyrir HMS þar sem kom fram að 17,1 prósent aðspurðra teldu að fasteignaverð myndi hækka töluvert í sínu sveitarfélagi á næstu 12 mánuðum. Sömu spurningu svöruðu aðeins 10,8 prósent játandi í nóvember á síðasta ári. 

Byggingamarkaður á batavegi

Enn fækkar íbúðum í byggingu og þær eru um 20 prósent færri á landinu öllu en á sama tíma í fyrra. „Samdrátturinn mælist mestur á höfuðborgarsvæðinu, en eins og stendur eru um 3.523 íbúðir í byggingu á svæðinu sem er um 21 prósenti minna en fyrir ári síðan þegar 4.452 íbúðir voru í byggingu,“ segir í skýrslunni.

Þó má víst greina merki um að byggingarmarkaðurinn sé farinn að taka aðeins við sér. Í fyrsta lagi hefur íbúðum í byggingu á fyrstu byggingarstigum fjölgað um 10 prósent frá því í haust og í öðru lagi fækkar nú hægar þeim sem starfa í byggingariðnaði. Hins vegar hefur aðeins dregið úr innflutningi á byggingarhráefnum, en hann jókst töluvert á seinni hluta síðasta árs. Samkvæmt HMS má þó búast við að það breytist þar sem byggingakrönum í notkun hefur fjölgað töluvert á síðustu tveimur mánuðum og nýskráningum fyrirtækja í greininni snarfjölgað.

Enn lækkar leiguverð

Merki eru um að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækki nú meira en verið hefur. Tólf mánaða breyting vísitölu HMS mælist -2,6 prósent í febrúar, en hún lækkar um 1,2 prósent á milli mánaða. Tólf mánaða breyting vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur verið neikvæð síðan í október á síðasta ári.

Sífellt fleiri sjá fyrir sér að vera á leigumarkaði: Hlutfall þeirra sem telja það öruggt eða líklegt að þeir verði á leigumarkaði eftir hálft ár eykst úr 14,4 prósentum í 15,8 prósent milli mælinga. „Þetta er hlutfall af heildinni og er hærra en hlutfall þeirra sem segjast nú þegar vera á leigumarkaði. Þetta gæti því verið vísir um að einhver fjölgun muni eiga sér stað á leigumarkaðnum eftir hálft ár. Líklegt er að hluti þeirra sem býr í foreldrahúsum færi sig yfir á leigumarkað á næstu mánuðum, sérstaklega í ljósi þess að leiguverð fer lækkandi á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í skýrslunni.