Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm frekar nördaleg fyrir helgina

Tónlistarmaðurinn John Grant
 Mynd: John Grant

Fimm frekar nördaleg fyrir helgina

16.04.2021 - 13:15

Höfundar

Það er ekkert partístand á Fimmunni þessa helgina, nú er það alvara lífsins, þykk súld, brúnt flauel, fölt tunglskin, hávaði og almennt vesen. Borin er á borð ljúfsár sálartónlist frá Joy Oladkun, rigningarlegt triphop Morcheeba, sækadelíu-nýbylga frá Crumb, göngutúr um æskuslóðir Johns Grant og súrkálssmessa frá Squid.

Joy Oladkun - Jordan

Tónlistarkonan Jay Oladkun kemur frá smábænum Casa Grande í Arizona og segir rætur sínar liggja í folk-tónlist, Bob Marley og Lauryn Hill. Joy sendi fyrst frá sér tónlist fyrir fimm árum og hefur átt nokkur lög sem hafa vakið athygli í Bandaríkjunum og þá helst hjá NPR. Hún hefur gefið út tvær stórar plötur en lagið Jordan er af þeirri þriðju sem kemur út seinna á árinu og heitir In Defense of My Own Happiness (Vol. 2).


Morcheeba - The Moon

Hljómsveitin Morcheeba er frá London og hefur verið starfandi með hléum frá árinu 1996. Sveitin er þekktust sem ein af fyrstu triphop-sveitunum og þrátt fyrir að hafa aldrei slegið alvarlega í gegn eins og Portishead og Massive Attack hefur hún gefið út níu plötur og spilar reglulega út um allan heim. Nú er sú tíunda Blackest Blue á leiðinni og The Moon er af henni.


Crumb - BNR

Undirheima- og svölukrakkasveitin Crumb gerir út frá Brooklyn og sendi frá sér plötuna Jinx fyrir tveimur árum sem sumum þótti vera með betri plötum þess árs. Nú eru þau að komast í gírinn aftur og platan Ice Melt er á leiðinni og miðað við fyrstu lögin sem heyrast af henni Trophy, Balloon og BNR er von á góðu.


John Grant - Boy From Michigan

Á nýju plötunni sinni Boy From Michigan sem er hans fimmta sólóplata og kemur út í sumar er John Grant að vinna með tónlistarkonunni Cate Le Bon á tökkunum. Í titillaginu röltir John um æskuslóðirnar í Michigan og veltir fyrir sér stærð heimsins, lyktinni af vorinu og hvað framtíðin beri í skauti sér.


Squid - Paddling

Brighton-sveitin Squid er frekar erfið og spilar skemmtilega súra blöndu af súrkáls - og post rokki og gefur út á Warp-útgáfunni sem er kannski þekktust fyrir framúrstefnulega raftónlist. Það er töluverð spenna hjá tónlistarnördum fyrir fyrstu plötu sveitarinnar í fullri lengd en hún kemur út í maí og hefur fengið nafnið Bright Green Field.


Fimman á Spottanum