Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekkert sem bendir til að leiðtogfundur verði hér

16.04.2021 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir ekkert benda til þess að Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hittist á leiðtogafundi hér á landi í sumar. Þeim standi það þó vissulega til boða.

„Það er ekkert á þessu stigi sem bendir til að það gæti orðið, en ég hef hins vegar lýst því yfir að við erum alltaf tilbúin að gera það sem við getum til þess að koma á samtali á milli, í þessu tilviki, þessara stórvelda,“ segir Guðlaugur Þór.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur hins vegar boðað komu sína hingað til lands á ráðherrafund Norðurskautsráðsins í maí. Þar gæti hann hitt bandaríska kollega sinn Anthony Blinken í fyrsta sinn, komi hann á fundinn, en vonast er eftir góðri mætingu utanríkisráðherra Norðurskautsríkja.

„Ég hef fyrir löngu sent öllum utanríkisráðherrunum boð um þann fund. En það skal þó hins vegar tekið fram að þegar við fundum á þessum vettvangi, þá erum við að ræða hagsmuni Norðurslóðanna og önnur mál verða ekki tekin fyrir þar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV