Bíða eftir viðbrögðum frá BPO Innheimtu

16.04.2021 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segist ekki hafa fengið viðbrögð frá BPO Innheimtu ehf. við kröfum samtakanna um að sýna fram á að fyrirtækið hafi raunverulega keypt kröfur sem sendar voru í innheimtu í vikunni og að kröfurnar séu réttmætar.

Neytendasamtökin kynntu Fjármálaeftirlitinu sín gögn í málinu á fundi þeirra síðdegis. Breki segir að innheimtukröfurnar hafi verið fjarlægðar úr heimabönkunum.  

„Við höfum farið fram á það við fyrirtækið að það sýni fram á að það eigi þessar kröfur sem það er að innheimta og að kröfurnar séu réttmætar. Við teljum fyrirtækinu ekki stætt á þvi að hefja innheimtu fyrr en það liggi fyrir,“ segir Breki. 

Hafið þið fengið einhver viðbrögð frá fyrirtækinu sjálfu? „Nei við höfum svo sem ekki fengið nein viðbrögð. Við bara bíðum og sjáum hvort fyrirtækið veiti ekki þessar upplýsingar og þessi gögn sem þau hljóta að búa yfir.“

Ekki náðist í Guðlaug Magnússon, framkvæmdastjóra BPO innheimtu, við vinnslu fréttarinnar. Í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér í gær segir að öllum kröfum í heimabanka verði breytt þannig að þær endurspegli einungis höfuðstól kröfunnar í samræmi við athugasemdir Neytendasamtakanna. Ekki sé því lengur nauðsynlegt fyrir skuldara að hafa samband við BPO innheimtu til að fá vanskilakostnað felldan niður gegn uppgreiðslu höfuðstóls. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV