Vilja að Norðmenn hætti að nota Astrazeneca

15.04.2021 - 14:06
pa08353186 Norway's Minister of Health and Care Services Bent Hoie during the daily press conference on the management of the coronavirus (Covid-19) situation, in Olso, Norway, 07 April 2020 (issued 09 April 2020). EPA-EFE/Hakon Mosvold Larsen NORWAY OUT
 Mynd: Hakon Mosvold Larsen - EPA-EFE
Norska lýðheilsustofnunin FHI mælir með því að notkun á bóluefni Astrazeneca verði hætt þar í landi, þetta var tilkynnt á blaðamannafundi klukkan tvö í dag. Stjórnvöld eiga eftir að taka ákvörðun um málið.

Bent Høie heilbrigðisráðherra sagði að Norska lýðheilsustofnunin telji að taka eigi bóluefni Astrazeneca úr umferð vegna sjaldgæfra en alvarlegra aukaverkana. Þá hafi stofnunin bent á að tekist hafi að halda faraldrinum í skefjum í Noregi. Stjórnvöld í Noregi eiga eftir að taka ákvörðun um hvort þessum tilmælum verði fylgt eftir.  Høie útskýrði hvers vegna stjórnvöld hafi ákveðið að bíða með ákvörðun sína. Hann sagðist hafa áhyggjur af alvarlegum aukaverkunum en einnig af því hver áhrifin verði á bólusetningar ef bóluefnið verði tekið út. Það hafi svo áhrif á fyrirhugaðar tilslakanir og stjórnvöld telji sig því ekki geta tekið lokaákvörðun á þessu stigi máls. 

Bóluefni Astrazeneca hefur ekki verið notað þar í landi síðan 11.mars, eftir að grunur kom upp um tengsl við blóðtappamyndun. Fimm norskir heilbrigðisstarfsmenn hafa fengið blóðtappa eftir að þau voru bólusett með bóluefni Astrazeneca, fjórar konur og einn karlmaður - öll á aldrinum 32 til 54 ára. Þrjú þeirra eru látin og tvö enn á spítala. Þá er fjórða dauðsfallið sem gæti tengst bóluefninu til rannsóknar. 

Fréttin hefur verið uppfærð ásamt fyrirsögn fréttar. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV