Þrefalt dýrara að rannsaka leghálssýni hér á landi

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Þrefalt dýrara er að rannsaka leghálssýni á Landspítalanum en í Danmörku. Heilbrigðisráðherra hefur ekki ákveðið hvort leghálsskimun verði færð af danski rannsóknarstofu til Landspítalans. Bið eftir niðurstöðu rannsókna er 8-10 vikur en heilsugæslan vonast til að biðin styttist í fjórar vikur um mánaðamótin.

Leghálsskimanir færðust til heilsugæslunnar um síðustu áramót frá Krabbameinsfélaginu. Ákveðið var að senda sýnin til Danmerkur til veiru- og frumugreiningar. Það hefur ekki gengið átakalaust og hafa konur þurft að bíða í nokkra mánuði eftir niðurstöðu. Núna er biðtíminn átta til tíu vikur. Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ætti sá biðtími að styttast í mánuð, jafnvel í næsta mánuði. Málið hefur sætt mikilli gagnrýni - til að mynda fyrir þær sakir að ekki hafi verið óskað eftir að Landspítalinn sæi um rannsóknirnar. 

Samkvæmt svari Landspítalans við fyrirspurn heilbrigðisráðuneytisins er kostnaður við HPV-veirugreiningu metinn á 3.656 krónur á sýni, þegar bætt hefur verið við kostnaði fyrir sýnatökuglas og -bursta. Ef veirugreining leiðir eitthvað athugavert í ljós eru sýni frumuskoðuð. Landspítalinn metur þann kostnað á 9.587 krónur. Kostnaðurinn við að senda sýni til Danmerkur er 3.200 krónur og skiptir ekki máli hvort það er frumu- eða veirugreint. Kostnaðurinn við að greina sýni hér á landi væri því þrefalt meiri en með því að senda sýnin til Danmerkur eins og nú er gert. Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að tala um kostnað sjúklinga heldur kostnað við rannsóknina. 

Um áramótin breyttust áherslur þannig að HPV-veirugreining var tekin upp hjá stærstum hópi kvenna og vegna þess að sú greining er talin nákvæmari en frumugreining mæta konur í skimun á fimm ára fresti í stað tveggja. Þess vegna fækkar þeim sýnum sem greina þarf á ári og eru þau sjö til átta þúsund. Að mati Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru þetta of fá sýni til þess að unnt sé að halda uppi færni þeirra sérfræðinga sem frumurannsaka sýnin og vísar því til stuðnings í evrópsk tilmæli um að sýnafjöldi þurfi að vera tvöfalt meiri. Hins vegar er það mat Meinafræðideildar Landspítalans að fjöldi óeðlilegra sýna, sem þarfnist frekari rannsókna, verði það mikill að unnt verði að halda uppi færni.

Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir umsögn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við svörum Landspítalans og því hefur ráðherra ekki ákveðið hvort fyrirkomulagi leghálsskimunar verði breytt.