Systrabönd „eins og spark í maga“ Kristínar

Þáttaröðin Systrabönd hefur víðast fengið jákvæð viðbrögð áhorfenda. Umtal um líkindi þáttanna við leikverk Kristínar Eiríksdóttur, Hystory, hefur hins vegar orðið hávær á samfélagsmiðlum.
 Mynd: - - Saga film / Borgarleikhúsið

Systrabönd „eins og spark í maga“ Kristínar

15.04.2021 - 18:52

Höfundar

Kristín Eiríksdóttir, höfundur verksins Hystory sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu fyrir sex árum, segir að sér hafi liðið eins og sparkað hafi verið í magann á henni þegar hún sá sjónvarpsþættina Systrabönd. Þar hafi sama saga og hún sagði í leikritinu verið útfærð með sömu áherslum. „Má það virkilega?“ spyr Kristín í pistli sem fluttur var í Víðsjá í dag.

Sjónvarpsþættirnir Systrabönd hafa notið mikilla vinsælda hjá Sjónvarpi Símans. Þeir segja frá þremur konum sem þurfa að horfast í augu við fortíð sína þegar jarðneskar leifar stúlku sem hvarf sporlaust á Snæfellsnesi á tíunda áratugnum finnast.

Strax eftir að þættirnir voru sýndir kom upp umræða á samfélagsmiðlum þar sem bent var á líkindi við leikritið Hystory eftir Kristínu sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu fyrir sex árum og síðar gefið út á bók.

Líkt í Systraböndum segir verkið segir frá þremur konum sem hittast aftur eftir að hafa burðast með gamlar syndir; ofbeldisverk gegn fjórðu stúlkunni þegar þær voru unglingar.

Kristín hefur nú brugðist við umræðunni um líkindin með pistli sem birtist á vef RÚV í dag undir fyrirsögninni „Nanna, Hanna og Shanda“. Hann var fyrst fluttur í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1. Og af lestri hans verður ekki annað sagt en að Kristín telur líkindin milli leikritsins og sjónvarpsþáttanna vera meira en tilviljun.

Í pistlinum segist hún hafa séð innslag í Menningunni á RÚV þar sem rætt var við leikstjóra, handritshöfunda og leikkonur Systrabanda. Þar hafi komið í ljós að söguuppleggið í þáttunum hafi verið tekið beint úr leikriti hennar og var aðalatriðið í þáttunum. Lögð var áhersla afleiðingur fyrir gerendur frekar en glæpinn sjálfan. „að útfæra sömu söguna með sömu áherslum … má það virkilega? Miðað við að mér leið einsog hefði verið sparkað í magann á mér, þá var ég ekki lengur viss.“

Kristín segist í pistli sínum stundum hafa liðið eins og hún væri að horfa á „afbökun á mínu höfundarverki“ og stundum eins og viss element hefðu verið sett í hatt, dregin upp úr aftur og ruglað og raða. 

Hún bendir einnig á að einn af höfundum handritsins að Systraböndum hafi árið 2014 frumsýnt verk í Borgarleikhúsinu á sama leikári og Hystory var frumsýnt. 

Hann hafi í tveimur viðtölum að undanförnu greint frá því að hugmyndin að þáttunum hafi kviknað síðla hausts 2014. „ Kannski hefur hann villst inná vitlausa æfingu og fengið hana þar, eða heyrt hana á kynningarfundinum fyrir leikárið, eða þegar hann heyrði söguna sárgrætilegu af bandarísku máli frá 1992.

Kristín segir að ef fólk vilji bera saman líkindi Systrabanda við leikritið Hystory sé mikilvægt að hafa það í huga að það skipti engu máli hvað kveikir hugmyndir. „Vegna þess að hugmyndir eru ekki varðar höfundarrétti heldur hvernig unnið er úr þeim.“ Hægt er að lesa pistil Kristínar í heild sinni hér. Hún vildi ekki tjá sig neitt frekar um efni pistilsins í samtali við fréttastofu.

Visir.is segist í dag hafa heimildir fyrir því að það stefni í dómsmál vegna höfundarréttarstulds í tengslum við málið. 

Silja Hauksdóttir, leikstjóri Systrabanda, sagði við útvarpsþáttinn Lestina fyrr í þessum mánuði að hún kannaðist við þessa umræðu um líkindin. „„Við vitum af þessum líkindum núna en þetta eru tvö ólík verk sem eiga sitthvorn innblásturinn, veit ég núna. Systrabönd er innblásin af morði á stúlku í Bandaríkjunum 1992, sem var myrt af fjórum stúlkum. Mér skilst að verkið Hystory sé innblásið af íslenskum ofbeldisglæp.“

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Nanna, Hanna og Shanda

Sjónvarp

Líkindi Systrabanda við leikrit vekja umtal

Sjónvarp

Brothættur og blákaldur raunveruleiki í Systraböndum

Sjónvarp

„Breyskar konur eru mitt uppáhald“