Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stórhuga áform um fiskeldi og orkuframleiðslu

15.04.2021 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Stórhuga áform eru uppi um mikla uppbyggingu fiskeldis á landi í og við Þorlákshöfn. Stefnt er á svo mikla framleiðslu á eldisfiski að sveitarfélagið Ölfus er farið að huga að stofnun nýs orkufyrirtækis til að mæta orkuþörfinni sem af því skapast.

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Fiskifrétta. Þar segir að unnið sé að undirbúningi fjögurra verkefna á sviði fiskeldis, sem samtals geti framleitt allt að 80.000 tonn af eldislaxi. Áætlað útflutningsverðmæti fisksins gæti numið 70 milljörðum króna, segir í blaðinu.

Mikil orkuþörf en lítið orkuframboð

Verkefnin eru sögð mislangt á veg komin, eitt þeirra nokkuð langt en hin skemmra. Verkefni Laxeldis ehf. er sagt lengst komið. Það fyrirtæki leigir þrjár lóðir í Þorlákshöfn og áformar að koma þar upp stærsta landeldi á Íslandi, með allt að 20.000 tonna framleiðslugetu.

Orkuþörf eldisstöðvar af þessari stærð er sögð 120 megavattstundir og er haft eftir Elliða Vignissyni, sveitarstjóra Ölfuss, að sveitarstjórnin hafi „hreinlega verið að skoða að stofna nýja orkuveitu“ af þessu tilefni, enda vanti hagkvæma orkukosti. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV