„Stærsti einstaki mánuðurinn minn frá upphafi“

15.04.2021 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Fasteignasali segist aldrei hafa upplifað önnur eins umsvif á fasteignamarkaði. Tillaga formanns Neytendasamtakanna um lögbundna ástandsskoðun virki ekki nema skoðandinn sé með ábyrgðartryggingu.

 

Segir biðina ekki borga sig

Það eru margir sem vilja kaupa, fáar eignir í boði og veltan á markaði með mesta móti. Lágir vextir hafa gert fólki kleift að kaupa fyrstu eign eða flytja úr fjölbýli í einbýli, jafnvel án þess að afborganirnar hækki mikið. „Seljendamarkaðurinn er búinn að vera óvenjulangur, það er rosalega mikill hraði og mars 2021 var stærsti einstaki mánuðurinn minn frá upphafi,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Húsaskjóli. 

Ástandið tekur á kaupendur sem slást um álitlegar eignir og þurfa að hafa hraðar hendur við tilboðsgerð. Ásdís segir ekki alltaf í boði að bíða og sjá því verðin hækki hratt og ekkert útlit fyrir að framboðið aukist á næstunni. Dæmi séu um að eignir hækki um 5 til 10 milljónir á örfáum mánuðum. „Ef þú bíður ertu kannski bara að hugsa þig út af markaði tímabundið. Þú getur eiginlega ekkert sagt mér finnst þessi verð ömurleg og ég ætla að bjóða undir því markaðurinn spilar ekki með kaupendum núna.“

Seljendur oft í klípu líka

Ásdís segir ástandið líka reyna á seljendur, þeir þurfi að velja úr fjölda misvel undirbúinna kaupenda. Margir hiki við að setja á sölu því þeir finna ekkert sjálfir, en þeir geta líka lent í vandræðum því fyrirvari um sölu vekur ekki alltaf lukku. Það skapast vítahringur sem viðheldur framboðsleysi. Ásdís hefur verið að prófa skipti á eignum. „Maður þarf svolítið að hugsa út fyrir kassann, hvernig getum við fengið eignirnar inn í sölu, sem við vitum að fólk er að bíða eftir.“ 

Heimsfaraldursáhrifin

 

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Pallur.

 

Ásdís segir vextina hafa mest áhrif á markaðinn nú en áhrifa heimsfaraldursins gæti líka, fólk er meira heima og það sem hentaði áður, þegar það varði stærstum hluta dagsins utan heimilis hentar ekki endilega lengur. Fólk vill meira pláss, garð og aukaherbergi fyrir heimaskrifstofuna. Ásdís segir þetta skýra aukna ásókn í sérbýli „og eignir á jarðhæð með palli seljast svakalega vel í dag.“  

Neytendasamtökin vilja ástandsskoðun

Pressan er mikil og ekki alltaf tími til að skoða oftar en einu sinni. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, leggur til að ástandsskoðun fyrir sölu verði bundin í lög.  Ásdís segir að þá verði fyrirtæki sem ástandsskoða að hafa ábyrgðartryggingar á bak við sig. „Ég hef ekki verið hrifin af því að seljendur séu skikkaðir til að ástandsskoða eignir nema þeir hafi eitthvað backup ef fyrirtækið sem gerir skýrsluna gerir mistök, ef það sér til dæmis ekki að glugginn er fúinn eða þakið ónýtt.“

Henni hugnast frekar sú lausn að fólk kaupi tryggingu og það sé gengið í hana ef eitthvað kemur upp á. 

Sjá einnig: „Hræðilegt“ að kaupa sína fyrstu íbúð í dag

Erfitt að gæta hagsmuna beggja í gallamálum

Breki efast um að fasteignasalar, sem fá sölulaunin frá seljendum, séu færir um að gæta hagsmuna bæði kaupenda og seljenda. Hann talar því fyrir að taka upp kerfi með tveimur fasteignasölum, annar gætir þá hagsmuna seljenda og hinn kaupenda. Ásdís segist vel fær um að gæta hagsmuna beggja í söluferlinu, öðru máli gegni þegar upp koma gallar. „Þá eigum við allt í eiun að vera hlutlaus aðili og gæta hagsmuni beggja, það segir sig sjálft að það er ekki hægt þegar koma upp deilur að gæta hagsmuna beggja jafnt, ég væri mjög hrifin af því ef það væri einhver leið sem væri hægt að fara svo fasteignasalinn þyrfti ekki að miðla málum í gallamálum.“ Hún segir að það geti verið dýrari leið að vera með tvo fasteignasala, í Bandaríkjunum sé það raunin og þar greiði kaupendur mun hærri gjöld.