Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skipt búseta barna samþykkt á Alþingi

15.04.2021 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi samþykkti í dag frumvarp dómsmálaráðherra sem heimilar börnum að hafa búsetu á tveimur stöðum ef foreldrar þeirra búa ekki saman.

Frumvarpið var samþykkt með 59 samhljóma atkvæðum en 4 sátu hjá. Í frumvarpinu eru nokkur nýmæli á barnalögum, til að mynda ákvæði um heimild til að semja um skipta búsetu barna, lögbundnar forsendur samninga foreldra um forsjá, búsetu og umgengni í viðeigandi lagaákvæðum, nýtt ákvæði um samtal að frumkvæði barns, skýrari ákvæði um rétt barns til að tjá sig og breyting á ákvæðum um framfærslu og meðlag með áherslu á aukið samningsfrelsi foreldra.

„Um langa hríð hefur kerfið ýtt undir mismunandi stöðu foreldra sem ala börn upp í fullkominni sátt og ýtir þar undir ágreining sem þarf ekki að vera þar sem annað foreldrið er í mun betri stöðu varðandi upplýsingar um barn sitt, aðgang að hinni ýmsu og er einu sinni ekki með skráð að sé foreldri barns. Með þessu erum við að breyta því að það sé hægt að skrá heimili á tveimur stöðum. Kerfið þarf að vera til fyrir öll mynstur fjölskyldna og má ekki þvælast fyrir þegar sú ákvörðun hefur verið tekin í sátt beggja aðila að deila ábyrgð og uppeldi,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu. 

Nýsköpunarmiðstöð lögð niður

Þá var einnig samþykkt frumvarp um opinberan stuðning við nýsköpun, en með því er Nýsköpunarmiðstöð Íslands lögð niður og verkefni hennar flutt annað. Starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar verða boðin ný störf svo sem hjá Rannís, Ríkiskaupum, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þeir eru 69 talsins. 

Stofnað verður tæknisetur í formi óhagnaðardrifins einkahlutafélags í eigu ríkisins. Í greinargerð frumvarpsins segir:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir stofnun tækniseturs í formi óhagnaðardrifins einkahlutafélags í eigu ríkisins. Við undirbúning frumvarpsins var ítarlega farið yfir þá möguleika sem eru fyrir hendi hvað rekstrarform varðar. Forsenda þessara breytinga er sú að starfsemi tækni- og rannsóknarseturs eigi betur heima í félagaformi en innan stofnunar í eigu ríkisins. Í ríkisrekstri felst að unnið er eftir skýrum ramma þar sem valdheimildir liggja hjá ráðherra og forstjóra stofnunar í hans umboði,“ segir í greinargerðinni. 

Í greinargerð Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 25. 2 greiddu ekki atkvæði og 4 sátu hjá. Frumvarpið má lesa hér. 

Fréttin hefur verið uppfærð á þann veg að frumvarpið gerir ráð fyrir að börn geti haft búsetu á tveimur stöðum. Áður var talað um lögheimili á tveimur stöðum í fréttinni.