Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rukka fólk um skuld sem búið er að greiða

15.04.2021 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á annað þúsund manns hafa sett sig í samband við Neytendasamtökin eftir að innheimtukröfur vegna smálána voru sendar út seint á þriðjudag. Formaður samtakanna segir dæmi um að verið sé rukka fólk um skuld sem þegar er búið að greiða. Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur kallað eftir gögnum frá innheimtufyrirtækinu út af þessum kröfum.

Segja má að síminn hafi varla stoppað hjá Neytendasamtökunum eftir að fyrirtækið BPO innheimta hóf að senda innheimtukröfur á fólk vegna smálána. Fyrirtækið segist í tilkynningu til fjölmiðla hafa keypt 24 þúsund smálánakröfur sem áður voru í eigu E-commerce.

„Aldrei fyrr í sögu samtakanna hafa jafn margir haft samband á jafn skömmum tíma eins og núna varðandi þetta fyrirtæki. Rétt tæplega 1.400 manns hafa sett sig í samband, á einn eða annan hátt við okkur undanfarinn sólarhring,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.

Hann segir að fólk hafi eðlilega verið hissa þegar það sá kröfurnar í heimabankanum.

„Það er hræðilegt að fá svona kröfur fyrirvaralaust inn á heimabankann sinn án þess að fá neinar upplýsingar um það.  Tilurð þeirra eða ástæðu. Í mörgum tilvikum er fólk þegar búið að greiða þessar kröfur. Í þessum kröfum er að okkar mati verið að leggja á ólöglega vexti og annan kostnað sem er búið að dæma eða úrskurða að sé ekki löglegt. Og í ýmsum tilvikum sem við höfum fengið á okkar borð þá kannast fólk ekki við þessar kröfur,“ segir Breki.

Neytendasamtökin ætla að funda með fjármálaeftirliti Seðlabankans á morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur fjármálaeftirlitið óskað eftir gögnum frá innheimtufyrirtækinu út af þessum kröfum.

„Það er margt í þessu sem þarfnast nánari skoðunar. Þetta er allavega ólíðandi háttsemi að skella inn svona kröfum án þess að rökstyðja það. Við getum bent á að í 19. grein laga um neytendalán þegar kröfur eru færðar á milli aðila þá þarf lánveitandinn að tilkynna lántaka að hann sé að selja þessa kröfu. Og lántaki hefur þá tækifæri til að koma með mótbárur. Í þessu tilviki var því ekki sinnt,“ segir Breki.