Ríkissaksóknari hækkar ekki sektir fyrir brot á sóttkví

15.04.2021 - 17:26
Mynd með færslu
Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Embætti ríkissaksóknara hefur ákveðið að hækka ekki sektir fyrir brot á sóttkví. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Friðjónsdóttur við fyrirspurn fréttastofu. Í svari til heilbrigðisyfirvalda segist hún telja að sú heimild sóttvarnalæknis að geta skikkað fólk sem rýfur sóttkví til að ljúka henni í sóttkvarnarhúsi hafi mun meiri fælingarmátt en hækkun sekta.

Sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra beindu þeim tilmælum til embættis ríkissaksóknara um að sektir fyrir að rjúfa sóttkví yrðu annað hvort hækkaðar eða sektarheimildirnar fullnýttar. 

Tilmælin voru send þegar nýjar reglur um hertar aðgerðir á landamærunum tóku gildi. Í minnisblaði sínu  sagðist sóttvarnalæknir telja „að auknar sektarheimildir letji menn til að brjóta sóttkvíarreglur.“ Sektir fyrir að rjúfa sóttkví eru í dag frá 50 þúsund til 250 þúsund krónur og þær verða það áfram. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Sóttvarnalæknir vildi hækka sektir þegar ekki var lengur hægt að skikka fólk á sóttkvíarhótelið.

Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, segir í svari sínu til heilbrigðisyfirvalda að hún hafi leitað upplýsinga hjá lögreglustjórum um fjárhæð sekta fyrir að rjúfa sóttkví. 

Sektaðir um 250 þúsund fyrir að vera úti á galeiðunni

Í svarinu kemur fram að í einhverjum tilvikum hafi sektir numið 250 þúsund krónum. Meðal annars hafi þrír erlendir ferðamenn fengið slíka sekt fyrir að vera á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur, undir áhrifum áfengis og innan um aðra ótengda einstaklinga.

Í öðru máli hafi annar verið sektaður um 50 þúsund krónur fyrir að fara upp í bíl með öðrum sem ekki var í sóttkví. Sigríður segist ekki telja efni til að hækka sektir fyrir brot á sóttkví. Sektarheimildirnar séu ríflegar miðað við sektir almennt hér á landi. „Þá má ætla að sú heimild sóttvarnarlæknis til að ákveða að einstaklingur sem ekki hefur fylgt reglum um sóttkví eða einangrun skuli sæta sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi hafi mun meiri fælingarmátt en hækkun sekta.“

Sigríður bendir jafnframt á að stór hluti þeirra sem verði uppvísir að brotum á reglum um sóttkví séu erlendir ferðamenn. „Af því leiðir að erfitt getur reynst að innheimta sektir eftir að viðkomandi er farinn úr landi.“ Hún telur því heppilegra að sektarfjárhæðin verði nokkuð viðráðanleg þannig að ferðamaðurinn geti greitt sektina sem fyrst, jafnvel á staðnum. „Í því sambandi má velta því upp við ríkislögreglustjóra hvort ekki væri æskilegt að útbúa vettvangsskýrsluform fyrir þessi brot,“ segir í svari Sigríðar.

Sóttkvíarhótel
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Kallað var eftir hærri sektum eftir að dvölin á sóttkvíarhótelinu var úrskurðuð ólögleg.

 

Sum brot geta kallað á ákæru

Í hinum nýju sektarfyrirmælum óskar ríkissaksóknari eftir upplýsingum um afgreiðslu allra mála sem upp koma og varða brot gegn sóttvarnalögum.  Lagt er fyrir ákærendur að meta hvert tilvik fyrir sig og ákvarða sektarfjárhæð með hliðsjón af alvarleika brotsins. Þau geti verið mismunandi og þar með misalvarleg. 

Þannig verði horft til þess í hvaða aðstæðum viðkomandi var þegar brotið var framið, hvort hann hafi verið í samneyti við marga eða fáa eða farið á einn eða fleiri staði.  Þá verði metið hvort hann hafi gætt varúðar þrátt fyrir brotið eða sýnt af sér vítaverða háttsemi. Saksóknari bendir jafnframt á að í sumum tilvikum kunni háttsemin að vera það alvarleg að ákæra beri fyrir brotið.

Þetta geti átt við þegar sakborningur geri nokkurn hóp manna útsettan fyrir sýkingu eða sýki hóp manna af COVID-19. „Enn alvarlegra ef um er að ræða að útsetja eða sýkja þá sem eru í sérstakri hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma“ Ef slík mál komi upp beri lögreglu að tilkynna það strax til ríkissaksóknara og héraðssaksóknara en síðarnefnda embættið fer með ákæruvaldið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV