Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rafskúta togaði tíu ára gamalt barn út á umferðargötu

15.04.2021 - 22:09
Mynd með færslu
 Mynd: Nína Hjördís Þorkelsdóttir - RÚV
Lögreglan á Norðurlandi eystra biðlar til foreldra og forráðarmanna barna um að brýna fyrir þeim að leigja ekki rafskútur. Tilefnið er að fyrr í dag mátti minnstu muna að tíu ára gamalt barna á slíku tæki yrði fyrir bíl.

Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar að það sem gerðist var að barnið gat ekki valdið rafskútunni sem það hafði leigt af rafskútuleigunni Hopp.

„Við gangbraut eina hér í bæ, gerðst það að hjólið fór af stað og togaði barnið út á götuna og hársbreidd munaði að bifreið yrði ekið á barnið og þeirri bifreið var ekið á umferðarhraða,“ segir í færslunni.

Rafskútuleigur hafa notið mikilla vinsælda á höfuðborgarsvæðinu og nú hefur Hopp tekið til starfa á Akureyri.  Lögreglan bendir á að leigutakar þurfi hins vegar að vera 18 ára.

Hún segir að þeir sem urðu vitni að þessu hafi verið mikið niðri fyrir og í áfalli. „Það þarf ekki að fjölyrða um hvað hefði getað gerst ef illa hefði farið.“ Hún vilji því beina til foreldra að brýna fyrir börnunum að þau megi ekki leigja svona rafskútur, gæta ávallt varúðar við hjólreiðar og nota alltaf hjálm.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV