Nató hættir aðgerðum í Afganistan

15.04.2021 - 06:20
epa09135855 NATO Secretary General Jens Stoltenberg during a joint press conference at NATO's headquarters in Brussels, Belgium, 14 April 2021, following a meeting after the United States announced the withdrawal of all its troops from the Afghanistan by September 11. US Secretary of State Antony Blinken said that the moment has come to withdraw troops from Afghanistan and that Washington would work with NATO allies on a 'coordinated' pull-out. NATO allies agreed to start withdrawing of their forces from Afghanistan by May 1.  EPA-EFE/JOHANNA GERON / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Utanríkis- og varnarmálaráðherrar allra 30 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins samþykktu í gær að draga allt herlið sitt frá Afganistan. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af tilkynningu Joes Bidens, Bandaríkjaforseta, um að hann ætli að hefja brottflutning bandarískra hermanna frá Afganistan 1. maí og ljúka honum í síðasta lagi 11. september, réttum 20 árum eftir árásina á Tvíburaturnana í New York.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á fréttamannafundi að „skipulagður, samhæfður og yfirvegaður" brottflutningur alls herafla bandalagsins frá Afganistan hefjist 1. maí og ljúki „innan fárra mánaða."

Stoltenberg sagði þetta ekki hafa verið auðvelda ákvörðun og að henni fylgi viss áhætta. Hins vegar sé tímabært að afgönsk stjórnvöld taki við keflinu og tryggi öryggi eigin borgara.

Um 3.500 bandarískir hermenn í Afganistan

Yfir 10.000 erlendir hermenn frá 36 löndum eru í Afganistan, langflestir þeirra frá aðildarríkjum NATO. Í þeim hópi eru Bandaríkjamenn fyrirferðarmestir, með allt að 3.500 manna lið þótt tölur þar um séu nokkuð á reiki. Um 2.500 þeirra tilheyra almennum herdeildum hinna ýmsu arma Bandaríkjahers, en bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í mars að allt að 1.000 bandarískir sérsveitarmenn væru einnig að störfum í Afganistan, þótt það komi ekki fram í opinberum tölum hersins. 

Biden sagðist á þriðjudag stefna að því að draga allt bandarískt herlið frá Afganistan fyrir 11. september. Í ávarpi sem hann flutti í Hvíta húsinu í gær lýsti hann því svo yfir að kominn væri tími til að binda enda á þetta lengsta stríð Bandaríkjanna og að brottflutningur heraflans frá Afganistan hefjist 1. maí.