Leggur skóna á hilluna vegna hjartavandamála

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Leggur skóna á hilluna vegna hjartavandamála

15.04.2021 - 17:04
Körfuboltaleikmaðurinn LaMarcus Aldridge hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna vegna hjartavandamála. Aldridge á að baki 15 ára farsælan feril í NBA deildinni þar sem hann lék með liðunum Portland Trail Blazers, San Antonio Spurs og Brooklyn Nets.

Aldridge tilkynnti sjálfur á samfélagsmiðlum að skórnir væru komnir upp í hillu. Í tilkynningu frá leikmanninum kemur fram að hann hafi fundið fyrir óreglulegum hjartslætti í síðasta leik sem hann spilaði og lýsti hann þeirri lífsreynslu sem ógnvænlegri. Hann hefði því ákveðið að taka engar áhættur með heilsuna og hætta í körfubolta. 

Lengst af lék Aldridge með Portland Trail Blazers þar sem honum vegnaði afar vel. Árið 2015 gekk hann til liðs við San Antonio Spurs sem hann spilaði með til 2021 við góðan orðstír. Aldridge hafði nýlega gengið til liðs við Brooklyn Nets og hafði aðeins náð að spila fimm leiki með liðinu áður en hann ákvað að hætta.