Hipsumhaps og The Vintage Caravan þjást af ást

Mynd:  / 

Hipsumhaps og The Vintage Caravan þjást af ást

15.04.2021 - 16:00

Höfundar

Í Undiröldu kvöldsins syngja sveitirnar Hipsumhaps og The Vintage Caravan um ást og þjáningar eins og venjulega. Önnur sem vilja upp á dekk með nýtt efni eru þau Sólborg eða Suncity ásamt La Melo, Daníel Hjálmtýssyni, Finn Dal, Volcano Victims og Love Guru.

Hipsumhaps - Þjást

Fannar Ingi Friðþjófsson býr til tónlist sína undir nafninu Hipsumhaps og sló heldur betur í gegn með plötunni Best gleymdu leyndarmálin árið 2019. Í síðustu viku sendi hann frá sér söngulinn 2021 og strax í kjölfarið kom myndband við lagið Þjást sem gæti verið skilgreind af gamla skólanum sem b-hlið, en bæði lögin verða að finna á væntanlegri plötu dúettsins sem kemur út síðar á árinu.


Suncity ásamt La Melo - Adios

Tón­list­ar­kon­an Sól­borg Guðbrands­dótt­ir sem vinnur tónlist undir hliðarsjálfinu Suncity hefur sent frá sér suðræna sólarslagarann Adios þar sem hún fær með sér tónlistarmanninn La Melo. Lagið er samið af þeim Nylon systrum Klöru Eli­as og Ölmu Goodm­an ásamt Aaron Max Zuckerm­an og La Melo og fylgir eftir vinsældum lagins Naked sem Suncity sendi frá sér í fyrra.


Daníel Hjálmtýsson - Coloring A Cloud

Colouring a Cloud er fyrsta smáskífa Daníels Hjálmtýssonar frá því þröngskífa hans kom út í nóvember. Daníel vann lagið Coloring A Cloud ásamt hljómsveit sinni, þeim Hálfdáni Árnasyni, Skúla Gíslasyni og Garðari Borgþórssyni en um hljóðblöndun og hljómjöfnun sá Alain Johannes.


Finn Dal - History Is Old News

History Is Old News er fyrsta lag Finn Dal sem kom út í byrjun apríl og er einhvers konar lágstemmd jaðartónlist með hugrenningartengslum við brimbretta- og bílskúrsrokk, eins og segir í tilkynningu frá Finn Dal.


Volcano Victims - Closer

Hljómsveitin Volcano Victims er skipuð þeim Guðjóni Rúnari Emilssyni sem spilar á bassa, trommur, hljóðgervlar, rafgítar og söngkonunum Hönnu Magdalenu Gödl og Líneik Jakobsdóttir. Sveitin sendi frá sér á dögunum samnefnda plötu þar sem lagið Closer er að finna.


The Vintage Caravan - Can't get you off my mind

Þriðja smáskífan af plötunni Monuments sem kemur út 16. apríl og er fimmta breiðskífa íslenska rokk bandsins The Vintage Caravan. Lagið er kraftmikið og hresst, textinn er persónulegur og einlægur sem er eitt af helstu einkennum nýjustu plötunnar, eins og segir í tilkynningu frá sveitinni.


Love Guru - Selfoss 2 1

Stærsti smellur Love Guru er 17 ára um þessar mundir og í tilefni af því skellti sverasti sonur Suðurlands í glænýja hljóðblöndun af bæjaróði sínu Selfoss 1 2 sem heitir í nýju útgáfunni Selfoss 2 1... þið skiljið.