Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Heimsglugginn: Talibanar gætu tekið völd í Afganistan

Afganskir Talibanar. - Mynd:  / 
Margir óttast að Talibanar nái aftur völdum í Afganistan eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti um brottför bandarískra hermanna frá landinu fyrir 11. september. Þá verða liðin 20 ár frá hryðjuverkum al-Qaeda í Bandríkjunum sem voru tilefni innrásar Bandaríkjamanna í Afganistan. Talibanar fylgja harðlínutúlkun á islam. Fyrri stjórn þeirra var sannkölluð ógnarstjórn sem bar ábyrgð á fjöldamorðum og ofsóknum á þeim sem talibanar töldu ekki fylgja ofsatúlkun þeirra á Islam.

Lengsta stríð í sögu Bandaríkjanna

Aðalefni Heimsgluggans á Morgunvakt Rásar-1 var Afganistan. Með brottflutningi bandaríska heraflans frá landinu. lýkur lengsta stríði í sögu Bandaríkjanna þar sem hátt á þriðja þúsund hefur fallið. Bandamenn Bandaríkjanna ætla einnig að kalla hermenn sína á brott.  Um 32.500 bandarískir hermenn eru enn í Afganistan. Forveri Bidens, Donald Trump, hafði áður tilkynnt að herliðið færi á brott rúmum fjórum mánuðum fyrr, eða fyrir fyrsta maí næstkomandi, eftir samninga við talibana.

NATO hermenn fara einnig

Það er búist við að allir aðrir erlendir hermenn verði kvaddir frá landinu á sama tíma, þarna eru ennþá hermenn frá mörgum NATO ríkjum þar á meðal 900 þýskir hermenn. Bandaríkjamenn lögðu á sínum tíma mikla áherslu á að bandamenn þeirra í NATO tækju þátt í aðgerðum í Afganistan, þannig hafa nokkrir Íslendingar verið í liðinu í Afganistan og Íslendingar báru á tíma ábyrgð á flugumferðarstjórn í Kabúl.

Aukaverkanir bóluefna AstraZeneca og Johnson & Johnson

Vandaræði með bóluefni voru einnig rædd í Heimsglugganum. Danir hafa hætt notkun AstraZeneca-bóluefnisins við kórónuveirunni vegna blóðtappa sem er sjaldgæf aukaverkun. Bandaríkjamenn hafa tímabundið hætt notkun Johnson & Johnson-bóluefnisins af sömu ástæðu. Bóluefnin byggjast á sömu veiruferjutækni og bæði hafa þau valdið lífshættulegum blóðtöppum, einkum hjá konum. Forstjóri Evrópsku lyfjastofnunarinnar segir að kostirnir við bóluefni AstraZeneca séu meiri en hættan á aukaverkunum. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir í Bandaríkjunum, segir að sex tilfelli hafi fundist í nærri sjö milljónum sem hafi verið bólusett með Johnson & Johnson-bóluefninu. Þessar ráðstafanir hafa valdið því að áætlanir um bólusetningar eru í uppnámi.