Gosstöðvarnar lokaðar almenningi í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Blautt og hvasst er við gosstöðvarnar í Geldingadölum og ekkert útivistarveður. Því verður svæðið lokað almenningi í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum nú rétt fyrir fréttir er lögregla á vakt á Suðurstrandarvegi og verður vaktað áfram af lögreglu og björgunarsveitafólki.

Bílastæðin sem búið er að koma upp nærri gosstöðvunum verða lokuð í dag og aðgengi að gosstöðvunum bannað. Aðstæður þar eru slíkar að hvort tveggja er meiri hætta á að fólk komi sér í vandræði og erfiðara um vik að koma því til aðstoðar ef svo fer.

Svæðið var rýmt í gærkvöld, hefur verið lokað síðan og verður lokað til fyrramáls hið minnsta. Vænta má upplýsinga um framhaldið síðar í dag, en það veltur einkum á veðurspánni.