Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Breyta umdeildum innheimtukröfum

15.04.2021 - 18:12
úr umfjöllun Kveiks um smálán.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Fjármálaeftirlitið hefur óskað eftir gögnum frá fyrirtækinu sem sendi innheimtukröfur á fólk vegna smálána. Neytendastofa hefur málið einnig til skoðunar. Fyrirtækið ætlar að breyta kröfunum þannig að þær endurspegla einungis höfuðstól lánanna.

 

Fyrirtækið BPO innheimta hóf seint á þriðjudag að senda innheimtukröfur á fólk vegna smálana. Kröfurnar birtust í heimabanka og voru með eindaga þann sama dag. Fyrirtækið sagðist í tilkynningu til fjölmiðla hafa keypt 24 þúsund smálánakröfur sem áður voru í eigu E-Commerce.

Formaður Neytendasamtakanna telur að fyrirtækið hafi mögulega brotið lög um neytendalán og umboðsmaður skuldara sagði í fréttum í gær að þetta væri brot á góðum innheimtuháttum sem kveðið er á um í lögum.

Dæmi eru um að fólk hafi verið rukkað um skuld sem það var búið að greiða og einnig að sama krafa hafi verið send á marga einstaklinga.

Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur kallað eftir gögnum frá fyrirtækinu og þá fengust þær upplýsingar frá Neytendastofu í dag að þar sé málið einnig til skoðunar.

Guðlaugur Magnússon, framkvæmdastjóri BPO innheimtu, gaf ekki kost á viðtali í dag. Í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér í dag segir að öllum kröfum í heimabanka verði breytt þannig að þær endurspegli einungis höfuðstól kröfunnar í samræmi við athugasemdir Neytendasamtakanna. Ekki sé því lengur nauðsynlegt fyrir skuldara að hafa samband við BPO innheimtu til að fá vanskilakostnað felldan niður gegn uppgreiðslu höfuðstóls.