Boða nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum

15.04.2021 - 18:26
President Joe Biden signs his first executive order in the Oval Office of the White House on Wednesday, Jan. 20, 2021, in Washington. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP Images - RÚV
Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í dag um nýjar refsiaðgerðir á hendur Rússum. Þetta eru þær fyrstu síðan Joe Biden tók við forsetaembætti í janúar. Í tilkynningu bandarískra yfirvalda segir að verið sé að refsa fyrir netárásir, afskipti af kosningum, innlimun Krímskaga og fyrir versnandi heilsufarsástand stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny. 

Tíu rússneskum diplómötum verður vikið frá Bandaríkjunum og saka bandarísk stjórnvöld þá um að tengjast leyniþjónustu Rússlands. Þá er um þrjátíu manns gefið að sök að hafa tekið þátt í tilraun til að hafa áhrif á niðurstöðu forsetakosninga í Bandaríkjunum í fyrra og mega þau ekki koma til Bandaríkjanna. Refsiaðgerðum er einnig beint að fyrirtækjum, þar á meðal eru þrjú sem tóku þátt í byggingu brúar frá Rússlandi til Krímskaga, að því er fram kemur í frétt The Moscow Times

Rússnesk stjórnvöld neita alfarið ásökunum þeirra bandarísku. Sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu var kallaður á fund í utanríkisráðuneyti Rússlands vegna málsins í dag og sagði talsmaður ráðuneytisins, Maria Zaharova, að fram undan væru erfiðar samræður. Ráðuneytið telur ásakanir Bandaríkjamanna fjandsamleg skref sem geti aukið spennuna milli ríkjanna, að því er greint er frá í frétt Breska ríkisútvarpsins, BBC. Bregðast verði einarðlega við slíkum ásökunum, segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Evrópusambandið, Atlantshafsbandalagið og Bretland hafa í dag lýst yfir fullum stuðningi við aðgerðir Bandaríkjanna. 

Samskipti ríkjanna hafa verið með kaldara móti síðustu vikur. Í mars svaraði Biden því játandi þegar hann var spurður í viðtali hvort hann teldi Vladimír Pútín, Rússlandsforseta vera morðingja. Pútín svaraði með því að segja að „margur teldi mig sig“. Rússar hafa aukið viðbúnað sinn við landamærin að Úkraínu og hafa Bandaríkin lýst yfir stuðningi við stjórnvöld í Úkraínu sem óttast innrás Rússa í austurhluta landsins. Pútín og Biden ræddu saman í síma í vikunni og stakk Biden upp á því að þeir myndu hittast á fundi á næstu vikum.