Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þórólfur vildi ekki leyfa áhorfendur á íþróttaviðburðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Einn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær og var í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi smit enda séu fleiri útsettir. Um eitt þúsund sýni voru tekin í gær en frekari tilsklakanir taka gildi á morgun. 

Nýgengi innanlandssmita lækkar enn. Það stendur nú í 14 á hverja 100 þúsund íbúa í dag en var 16 í gær. Tvennt liggur á sjúkrahúsi með COVID-19, 199 eru í sóttkví og 83 eru í einangrun.

Talsverðar tilslakanir taka gildi á morgun fimmtudag, sem gert er ráð fyrir að gildi í þrjár vikur. Þórólfur segir ráðleggingar sínar að stórum hluta hafa skilað sér í reglugerð heilbrigðisráðherra. 

„Ég lagði til að áhorfendur yrðu ekki leyfðir á íþróttaviðburðum en ráðherra gerði það. Það er ekkert við því að segja finnst mér.“ 

Allt íþróttastarf kemst í gang á ný á morgun, fjöldatakmarkanir fara úr tíu í tuttugu og sundlaugar, skíðasvæði og kvikmynda- og leikhús verða opnuð að nýju.

Af þeim dvelja 27 í sóttkvíarhúsinu Lind í Reykjavík. Hátt í 300 eru á sóttkvíarhóteli í Reykjavík og um tíu á Egilsstöðum.

Þórólfur telur að smitrakning hafi að mestu náð utan um smit utan sóttkvíar. Öll smit síðustu vikur segir hann vera af breska afbrigðinu en hann hvetur fólk eindregið til að fara í skimun. 

Enginn tími sé réttur varðandi það hvenær aflétta beri sóttvarnaraðgerðum. „Við gerum þetta svipað og í janúar þegar við vorum að aflétta eftir þriðju bylgjuna. Þá var svipaður fjöldi sýna dagana á undan og við styðjumst svolítið við það og vonumst til að ná sama árangri og þá.“

Hann segir að fylgjast verði grannt með árangrinum en aldrei sé að vita hverju fram vindi fyrirfram. 

„Fólk þarf að passa sig. Þetta stendur og fellur með því hvað við sem einstaklingar gerum. Að við reynum að forðast hópamyndanir sem mest jafnvel þótt mörkin séu 20. Það kunna þetta allir og það er það sem skiptir máli.“

Hátt í þrjátíu nemendur í fimmta bekk Öldutúnsskóla og þrír kennarar eru í sóttkví eftir að smit var staðfest í árganginum. Önnur börn í skólanum þurfa ekki að fara í sóttkví.

Öll kennsla í Menntaskólanum í Hamrahlíð verður um netið út vikuna því kennari þar greindist með kórónuveiruna.