Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óvissa um gæði útlána og afskriftarþörf

14.04.2021 - 09:06
Mynd með færslu
 Mynd: Seðlabankinn
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands telur að enn sé óvissa um efnahagsáhrif COVID-19 farsóttarinnar. Bæði sé óvissa um gæði útlána fjármálafyrirtækja og um afskriftarþörf vegna farsóttarinnar. Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur þó fram að áhætta sé ekki að safnast upp í fjármálakerfinu þrátt fyrir verðhækkanir á eignamörkuðum. Þá hafi aðgerðir stjórnvalda og laust taumhald peningastefnu stutt við heimili og fyrirtæki.

„Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk. Bankarnir hafa greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Þeir búa þannig yfir viðnámsþrótti til að takast á við neikvæðar afleiðingar farsóttarinnar,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Nefndin telur ástæðu til þess að fylgjast áfram með fasteignamarkaðinum og skuldaþróun. Nefndin telur mikilvægt að jafnvægi ríki á milli framboðs og eftirspurnar og að lánveitendur sem og lántakendur séu meðvitaðir um að töluverðar breytingar gætu orðið á greiðslubyrði óverðtryggðra lána.

„Fjármálastöðugleikanefnd mun beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi,“ segir í yfirlýsingunni.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV